Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei kosið gegn stjórnarfrumvörpum síðasta þingvetur, en formaður Framsóknar sagði í dag að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu farið gegn stjórnarfrumvörpum trekk í trekk.
„Þegar ég sá þessi orð Sigurðar Inga fletti ég fyrir forvitnisakir upp hvenær þingmenn Sjálfstæðisflokksins kusu gegn stjórnarmálum síðasta þingvetur. Það gerðist aldrei,” segir Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður í samtali við mbl.is.
Hún segir að tvisvar hafi það gerst að þingmaður sat hjá við afgreiðslu stjórnarmáls en í hvorugt skipti hafi það haft áhrif á afdrif málsins.
„Þannig að ef Sigurður Ingi kallar það að fara gegn stjórnarmálum trekk í trekk leyfi ég mér góðfúslega að segja að það sýnist mér vera nýjustu ýkjur úr Suðurkjördæmi,“ segir Hildur, en Sigurður skipar annað sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.
Sigurður sagði í samtali við mbl.is í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn hefði varla verið stjórntækur síðustu mánuði.
„Einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið gegn stjórnarfrumvörpum trekk í trekk og það hefur blasað við mér að það er á mörkunum að Sjálfstæðisflokkurinn, eins öflugur og hann hefur alltaf verið, er varla stjórntækur búinn að vera síðustu mánuðina. Enda sprengdi hann ríkisstjórnina,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is.
Spurð hvort að þetta sé ekki rétt hjá Sigurði og hvort að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki látið óhóflega mikið í sér heyra segir Hildur:
„það er ekkert nema eðlilegt að þingmenn taki snúning eftir sannfæringu sinni og þinglega meðferð á málum frá ríkisstjórninni. Ráðherrar geta ekki verið hvumpnir yfir því, það er einfaldlega kveðið svo á um í þrígreiningu ríkisvalds að löggjafarvaldið liggur hjá þingmönnum en ekki ráðherrum,“ segir hún.
Hún segir enga dyggð fólgna í því gagnvart kjósendum að sitja „á hliðarlínunni“ og „stimpla mál sem fara þvert gegn okkar sannfæringu“ til þess eins að halda sæti við ríkisstjórnarborðið.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið í ríkisstjórn bara til þess að vera í ríkisstjórn. Við vorum kosin til þess að ná árangri í tilteknum málum og ef róið er í aðra átt þá láta þingmenn okkar í sér heyra eðli málsins samkvæmt,“ segir hún.