Svarar Sigurði: „Nýjustu ýkjur úr Suðurkjördæmi“

Í aug­lýs­ingaþætti sem Framsókn fram­leiddi segir Sigurður að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi …
Í aug­lýs­ingaþætti sem Framsókn fram­leiddi segir Sigurður að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi á ein­hvern hátt verið stjórn­laus á síðari hluta kjör­tíma­bils­ins. Samsett mynd

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei kosið gegn stjórnarfrumvörpum síðasta þingvetur, en formaður Framsóknar sagði í dag að ein­staka þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hefðu farið gegn stjórn­ar­frum­vörp­um trekk í trekk.

„Þegar ég sá þessi orð Sigurðar Inga fletti ég fyrir forvitnisakir upp hvenær þingmenn Sjálfstæðisflokksins kusu gegn stjórnarmálum síðasta þingvetur. Það gerðist aldrei,” segir Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður í samtali við mbl.is.

Tvisvar setið hjá 

Hún segir að tvisvar hafi það gerst að þingmaður sat hjá við afgreiðslu stjórnarmáls en í hvorugt skipti hafi það haft áhrif á afdrif málsins.

„Þannig að ef Sigurður Ingi kallar það að fara gegn stjórnarmálum trekk í trekk leyfi ég mér góðfúslega að segja að það sýnist mér vera nýjustu ýkjur úr Suðurkjördæmi,“ segir Hildur, en Sigurður skipar annað sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi. 

Sigurður sagði í samtali við mbl.is í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn hefði varla verið stjórntækur síðustu mánuði.

„Ein­staka þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa farið gegn stjórn­ar­frum­vörp­um trekk í trekk og það hef­ur blasað við mér að það er á mörk­un­um að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, eins öfl­ug­ur og hann hef­ur alltaf verið, er varla stjórn­tæk­ur bú­inn að vera síðustu mánuðina. Enda sprengdi hann rík­is­stjórn­ina,“ sagði Sig­urður Ingi við mbl.is.

Engin dyggð í því að sitja „á hliðarlínunni“

Spurð hvort að þetta sé ekki rétt hjá Sigurði og hvort að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki látið óhóflega mikið í sér heyra segir Hildur:

„það er ekkert nema eðlilegt að þingmenn taki snúning eftir sannfæringu sinni og þinglega meðferð á málum frá ríkisstjórninni. Ráðherrar geta ekki verið hvumpnir yfir því, það er einfaldlega kveðið svo á um í þrígreiningu ríkisvalds að löggjafarvaldið liggur hjá þingmönnum en ekki ráðherrum,“ segir hún.

Hún segir enga dyggð fólgna í því gagnvart kjósendum að sitja „á hliðarlínunni“ og „stimpla mál sem fara þvert gegn okkar sannfæringu“ til þess eins að halda sæti við ríkisstjórnarborðið.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið í ríkisstjórn bara til þess að vera í ríkisstjórn. Við vorum kosin til þess að ná árangri í tilteknum málum og ef róið er í aðra átt þá láta þingmenn okkar í sér heyra eðli málsins samkvæmt,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert