Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir að þung staða sé í kjaraviðræðum kennara, ríkis og sveitarfélaga. Samninganefndirnar funduðu í dag og segir hann að lítil hreyfing sé á viðræðunum.
Boðað hefur verið til nýs samningafundar klukkan 12 á morgun.
Fyrr í dag boðaði Kennarasambandið til verkfalla í tíu leikskólum til viðbótar. Verkföllin eru ótímabundin og hefjast 10. desember verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.
Aðspurður segist Ástráður ekki vongóður um að þessar aðgerðir muni hafa áhrif á viðræðurnar.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekkert hafi þokast áfram í viðræðunum síðan á þriðjudag. Ástráður tekur undir það.
Fyrir fundinn á þriðjudag höfðu samninganefndirnar ekki hist í 17 daga. Forsendan fyrir fundinum var að báðir deiluaðilar hefðu samþykkt að leita nýrra aðferða til að nálgast samninginn.
Aðspurður segir Ástráður að enn sé ekki búið að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum.
Deilurnar snúast fyrst og fremst um að samkomulag frá árinu 2016 verði efnt og takast samningsaðilar á um hvað felist í samkomulaginu og hvernig eigi að uppfylla það.
Að mati Kennarasambandsins snýst samkomulagið meðal annars um að grunnlaunasetning sérfræðinga í fræðslugeiranum og annarra sérfræðinga á opinberum markaði verði jafnsett launum á almennum markaði.