Viðreisn mælist nú með mesta fylgið þegar aðeins átta dagar eru til kosninga. Samfylkingin tapar miklu fylgi á milli vikna og Framsókn mælist út af þingi.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents sem er unnin fyrir Morgunblaðið og var kynnt fyrir skömmu í Spursmálum.
Viðreisn mælist með 22% sem er á pari við það sem flokkurinn mældist með fyrir viku síðan.
Samfylkingin tapar hins vegar 4,1 prósentustigi á milli vikna og mælist nú með 18,3% fylgi. Fylgismunurinn á flokkunum er þó áfram innan skekkjumarka.
Gömul skrif Þórðar Snæs Júlíussonar á blogginu „Þessar elskur“, sem haldið var uppi af honum og félögum á árunum 2004-2007, voru dregin fram í þætti Spursmála á mbl.is á þriðjudag í síðustu viku.
Í kjölfarið tilkynnti hann að hann myndi ekki þiggja þingsæti ef hann yrði kjörinn.
Miðflokkurinn mælist með 13,5% fylgi en fyrir viku síðan mældist flokkurinn með 15,5% fylgi og tapar því tveimur prósentustigum.
Flokkur fólksins sækir í sig veðrið á milli vikna og mælist nú með 12,5% fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með álíka mikið fylgi og fyrir viku síðan og mælist með 11,5% fylgi.
Athygli vekur að Píratar taka mikið stökk á milli vikna og flokkurinn mælist nú með 6,7% fylgi eftir að hafa mælst með 3,4% fylgi fyrir viku síðan. Sósíalistaflokkurinn mælist með 6,4% fylgi og næði einnig inn á þing.
Stjórnarflokkarnir Framsókn og Vinstri græn mælast hvorugir inn á þingi. Framsókn mælist með 4,4% fylgi og Vinstri græn mælast með 3% fylgi.
Lýðræðisflokkurinn mælist með 1% fylgi.