Varaþingmaður segir sig úr Miðflokknum

Erna Bjarnadóttir er genginn úr Miðflokknum.
Erna Bjarnadóttir er genginn úr Miðflokknum. Ljósmynd/Facebook

Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, hefur sagt sig úr flokknum. Hún sóttist eftir því að leiða listann fyrir komandi kosningar en var hafnað.

Frá þessu greinir hún í færslu á Facebook.

„Ég er svo heppin að hafa fengi tækifæri til að stíga inn á svið stjórnmálanna. Reynslan er ómetanleg. Ég er líka svo heppin að eiga vini í flestöllum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum. Ég hef sagt mig úr Miðflokknum og ákveðið að ganga óbundin til komandi kosninga,“ skrifar hún á facebook.

Samdi ljóð til að útskýra ákvörðunina

Hún útskýrir svo ákvörðun sína með ljóði:

„Á sólríkum sumardegi

Ég sveif um sunnlenska vegi

Komin í framboð

Miðflokksins amboð

Ég skrifa það og segi

Með Heiðbrá og Birgi ég þaut um

Búmm! Við komum og flautum

Ding Ding Ding

Datt Birgir á þing

Og Beggi kom á‘ eftir á skautum

Já ýmsa hef eignast þar vini

Af öndvegisgóðu kyni

Konur og karla

Og gleymi ég varla

Bergþóri Ólasyni

En örlögin flýr enginn hér

Óttalaust því segi ég þér

ég er utan af landi

Í ágætu standi

En Miðflokkurinn gekk úr mér.

Takk fyrir mig.“

Sóttist eftir því að leiða listann

Eins og fyrr segir þá sóttist hún eftir því að leiða lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar.

Þann 25. október greindi hún frá því að flokkurinn hafi boðið henni 6. sæti á lista og svo 3. sæti á lista.

Hún hafnaði þeim sætum en fyrir síðustu kosningar skipaði hún 2. sæti á lista flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert