Jónas Björn Sævarsson (Jonni) frá félagsmiðstöðinni Bústöðum, vann Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins, sem fór fram í Fellaskóla í gær. Hann sló í gegn með lag sitt „Frá mér”.
Í öðru sæti voru þeir Ragnar Eldur Jörundsson og Pétur Marínósson úr félagsmiðstöðinni Frosta með lagið „Lagið heitir bara þetta”. Andrea Sæmundsdóttir úr félagsmiðstöðinni Hólmaseli tók þriðja sætið með lagið „ÁTTIRNAR FJÓRAR“.
Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins, var haldin í fyrsta skipti árið 1999 og því fögnuðu keppendur og áhorfendur 25 ára afmæli keppninnar í gær.
Dómnefndina skipuðu þau Cell7, Gnusi og Árni Matthíasson. Plötusnúðarnir DJ Fingaprint og DJ Nino spiluðu í upphafi viðburðar auk þess sem listamaðurinn Floki graffaði listaverk fyrir viðburðinn.
Einnig komu fram Nóri sigurvegari Rímnaflæðis 2023 og dansararnir Brynjar and Max frá Dans Brynju Péturs. Í lokin kom Daniil fram við góðar undirtektir.