Áttar sig ekki á ummælum Sigurðar Inga

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njáll Trausti Friðbertsson, sem skipar annað sæti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, áttar sig ekki á yfirlýsingum Sigurðar Inga Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins.

Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir Sigurði Inga að það væri alrangt að aldrei hefði verið sótt eins hart að Reykjavíkurflugvelli, en ummælinn lét hann falla í þætti Spursmála á föstudag.

Hafði hann verið spurður um stöðu Reykjavíkurflugvallar en þrengt hefur verið að vellinum og erfitt hefur meðal annars reynst að fá borgina til að lækka eða fella tré í Öskjuhlíð sem Isavia telur að ógni orðið flugöryggi.

„Það er alrangt hjá þér að aldrei hafi verið sótt eins grimmilega að vellinum. Þegar Hlíðarendahverfið var fyrst reist var það algjör nýjung að byggja svona ofan í. Þegar innanríkisráðherrann úr Sjálfstæðisflokknum ákvað að selja borginni ákveðið land þá held ég að það hafi verið stærra högg,“ sagði formaðurinn.

Óskaði eftir minnisblaði fyrir nokkrum árum

Í nýrri færslu á Facebook segist Njáll ekki átta sig á hvert Sigurður Ingi sé að fara með ummælunum.

„Er hér viljandi verið að fara með rangt mál í pólitískum tilgangi eða eru um einhverjar eðlilegar skýringar að ræða.“

Segir Njáll upplýsingarþjónustu Alþingis hafa tekið saman minnisblað fyrir Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd fyrir nokkrum árum sem hann sjálfur óskaði eftir og má sjá skjalið í færslu hans.

„1.mars 2013 Samningur undirritaður milli íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar þar sem borgin kaupir landsvæði í Vatnsmýri af ríkinu og skuldbindur sig til að gera deiliskipulag fyrir heildarsvæðið gegn því að ríkið gefi út afsal þegar tilkynning samgönguráðuneytis um lokun 06/24 hefur tekið gildi gagnvart öllu flugi,“ segir í minnisblaðinu.

Vill fá nákvæmari skýringar

Segir Njáll að rétt sé að minna Sigurð Inga á staðreynd málsins.

„Það voru þau Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra Samfylkingarinnar og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs sem skrifuðu undir kaup Reykjavíkurborgar á landssvæði í Vatnsmýrinni af ríkinu. Þetta var á tímum vinstri stjórnarinnar rétt fyrir þingkosningar í apríl 2013.“

Segist hann fyrir nokkrum vikum hafa gert athugasemd við og viljað fá nákvæmari skýringar á hvaða forsendur voru á bak við söluna.

„Því eitt og sér þá dugar 6.greinar heimildin í fjárlögum 2013 ekki til. Þar sem heimildin snýst um sölu á landi utan flugvallagirðingarinnar. Nú væri hið eina rétta að öll gögn málsins yrðu lögð fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert