Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að umfjöllunin um stöðu flokkanna í aðdraganda kosninga hafi verið smá villandi. Hann segir lítið þurfa til þannig að Sjálfstæðisflokkurinn endi sem stærsti flokkurinn á þingi og þá telur hann nær engar líkur á því að Framsókn falli út af þingi.
„Til dæmis í Gallup könnuninni sem kom núna á föstudaginn þá er í raun mjög lítill munur á fylgi þeirra þriggja flokka sem eru efstir,“ segir Baldur.
Í könnun Gallup er Samfylkingin með 20% fylgi, Viðreisn með 18% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 16% fylgi. „Það þarf ekki miklar fylgisbreytingar hjá þessum flokkum til að breyta þessari röðun. Ég hef ekki séð umfjöllun um það til dæmis,“ segir Baldur.
Hann segir að á síðustu árum hafi fylgi Sjálfstæðisflokksins á stundum verið vanmetið á sama tíma og fylgi Samfylkingarinnar hafi verið ofmetið. Þá segir hann erfitt að segja til um það hversu mikið af fylgisaukningu Viðreisnar í könnunum muni skila sér á kjördag.
„Ég myndi segja að allir þessir þrír flokkar eiga möguleika á því að verða stærstir,“ segir hann og segir aðspurður að hann telji engan annan flokk geta endað sem stærsti flokkurinn í kosningunum.
Hann segir að það endi oft þannig að sá flokkur sem er á uppleið í lokavikunni græði á kjördag en sá flokkur sem er á niðurleið í lokavikunni fái oft útreið.
Þrjár kannanir birtust á fimmtudag og föstudag og þegar meðaltal þeirra er tekið saman má sjá að Framsókn mælist með 5,5% fylgi. Í könnun Prósents mældist hann með 4,4% fylgi og myndi falla af þingi með slíkt fylgi.
En Baldur telur nær engar líkur á því að Framsókn nái ekki inn á þing.
„Ég leyfi mér að fullyrða að ég tel nær engar líkur á því að Framsóknarflokkurinn komist ekki inn á þing,“ segir hann og bendir meðal annars á sterka stöðu flokksins út á landi.
„Kosningabarátta Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur oft skilað þeim ágætlega undir lok baráttunnar. Þetta eru náttúrulega tvær öflugustu kosningamaskínur landsins, það má ekki gleyma því,“ segir hann.
Hann segir að það velkist enginn í vafa um það að stjórnarflokkarnir séu að tapa fylgi en það verði líka að horfa til sögunnar.
Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðeins einu sinni á síðustu öld ekki verið stærsti flokkurinn á þingi og aldrei hefur verið nokkur spurning um það hvort að Framsókn komist inn á þing.