Læknafélag Íslands og samninganefnd ríkisins eru byrjuð að teikna upp kjarasamning og vonir eru bundnar við það að hægt verði að afstýra boðuðu verkfalli sem á að hefjast á miðnætti. Einnig stendur yfir fundur í kjaraviðræðum kennara og sveitarfélaga.
Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Spurður út í fund lækna og ríkisins segir Ástráður:
„Það er bara allt á fullu í mikilli og mjög jákvæðri vinnu við að reyna ganga frá kjarasamningi. Það verður ekkert undan neinu kvartað í því,“ segir hann.
Verkfallsaðgerðir lækna sem starfa hjá hinu opinbera hefjast á miðnætti og munu standa yfir til 28. nóvember, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Nær verkfallið til lækna sem starfa á Landspítalanum og á öðrum heilbrigðisstofnunum um allt land, ásamt heilsugæslustöðvum sem reknar eru af ríkinu.
Áttu von á því að það takist að semja áður en verkfallið hefst?
„Ég er alltaf vongóður,“ segir Ástráður.
En þetta er ekki eini fundurinn í Karphúsinu þessa stundina því að kjaraviðræður kennara og ríkis og sveitarfélaga eru líka í fullum gangi. Í gær sagði Ástráður að „verulegur framgangur“ hefði orðið í kjaraviðræðum.
„Við erum að feta okkur varlega af stað frá þeim punkti sem fundum í gær loksins í kennaramálunum,“ segir hann stöðuna.