Í kappi við tímann að reyna að afstýra verkfalli

Það er nóg um að vera í Karphúsinu í dag.
Það er nóg um að vera í Karphúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lækna­fé­lag Íslands og samn­inga­nefnd rík­is­ins eru byrjuð að teikna upp kjarasamning og vonir eru bundnar við það að hægt verði að afstýra boðuðu verkfalli sem á að hefjast á miðnætti. Einnig stendur yfir fundur í kjaraviðræðum kennara og sveitarfélaga. 

Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Spurður út í fund lækna og ríkisins segir Ástráður:

„Það er bara allt á fullu í mikilli og mjög jákvæðri vinnu við að reyna ganga frá kjarasamningi. Það verður ekkert undan neinu kvartað í því,“ segir hann.

Vongóður um að hægt verði að afstýra verkfallinu

Verk­fallsaðgerðir lækna sem starfa hjá hinu op­in­bera hefjast á miðnætti og munu standa yfir til 28. nóv­em­ber, verði ekki búið að semja fyr­ir þann tíma. Nær verk­fallið til lækna sem starfa á Land­spít­al­an­um og á öðrum heil­brigðis­stofn­un­um um allt land, ásamt heilsu­gæslu­stöðvum sem rekn­ar eru af rík­inu.

Áttu von á því að það takist að semja áður en verkfallið hefst?

„Ég er alltaf vongóður,“ segir Ástráður.

Fara varlega af stað í deilum kennara

En þetta er ekki eini fundurinn í Karphúsinu þessa stundina því að kjaraviðræður kenn­ara og rík­is og sveit­ar­fé­laga eru líka í fullum gangi. Í gær sagði Ástráður að „veru­leg­ur fram­gang­ur“ hefði orðið í kjaraviðræðum.

„Við erum að feta okkur varlega af stað frá þeim punkti sem fundum í gær loksins í kennaramálunum,“ segir hann stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert