Neytendur hafa orðið varir við minna úrval af eggjum í verslunum að undanförnu. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála, sér í lagi í kjölfar brunans hjá Nesbúi um síðustu helgi þar sem sex þúsund hænsnfuglar drápust.
Forsvarsmenn stærstu matvöruverslana segja þó að óþarfi sé fyrir neytendur að hafa áhyggjur af ástandinu nú þegar margir eru farnir að huga að jólabakstrinum.
„Krónan hefur fundið fyrir eggjaskorti síðustu mánuði en verslanir okkar hafa lent í því að pantanir séu ekki afgreiddar að fullu frá eggjabændum,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar.
Hún segir að líkt og komið hafi fram í fjölmiðlum sé ein ástæða þessa eggjaskorts aukin eftirspurn en einnig hafi það eflaust haft sín áhrif að reglugerð um búreldi hænsna hefur nú tekið gildi að fullu með tilheyrandi áhrifum á framleiðslugetu.
„Við í Krónunni tókum þá ákvörðun árið 2017 að hætta sölu á búrhænueggjum og höfum í raun ekki fundið fyrir miklum skorti áður. En núna virðist vera meiri þrýstingur á framboð til okkar og innlend framleiðsla nær ekki að anna eftirspurn að fullu. Þarna bætir eldsvoðinn hjá Nesbúeggjum ekki stöðuna.
Okkur finnst líklegt að þessi skortur verði viðvarandi, allavega eitthvað fram á næsta ár. Til að bregðast við höfum við lagt það til að tollar verði lækkaðir eða felldir niður tímabundið af innflutningi eggja. Það mál virðist ekki ná neinni framvindu, sem er miður,“ segir framkvæmdastjórinn.
Þrátt fyrir pattstöðu í tollamálum segir Guðrún að Krónan hafi brugðist við með því að tryggja sér innflutt egg til viðbótar við innlent framboð. „Við verðum að vera viss um að viðskiptavinir okkar fái eggin sín, sérstaklega núna þegar aðventan gengur í garð.“
Undir þetta tekur Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar‑ og mannauðssviðs hjá Samkaupum, sem reka verslanir Nettó.
„Enginn þarf að hafa áhyggjur af jólabakstrinum, það er til nóg af eggjum og bruninn hefur ekki áhrif fyrr en eftir áramót. Við erum auðvitað á fullu að bregðast við því með birgjum bæði hér á landi og erlendis.“
Nánari upplýsingar um þetta má finna í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins en þar var einnig rætt við Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóra Bónuss.