Um það bil þrjú þúsund Íslendingar kusu utan kjörfundar um helgina og nú hafa í heildina 17.100 kosið utan kjörfundar. Ekki er ólíklegt að yfir 20 þúsund muni kjósa til viðbótar utan kjörfundar.
Íslendingar ganga að kjörborðinu á laugardaginn.
Þetta segir Einar Jónsson, staðgengill sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Hún [kjörsóknin utan kjörfundar] er örlítið meiri heldur en í forsetakosningunum. Það munar ekki miklu en það er örlítið meira núna á landsvísu. Það er varla marktækur munur,“ segir Einar.
Hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafa 9.850 greitt atkvæði, á Norðurlandi eystra hafa 1.170 greitt atkvæði og á Austurlandi hafa 295 greitt atkvæði.
Á Suðurnesjum hafa 492 kosið, á Suðurlandi hafa 880 kosið og í Vestmannaeyjum hafa 147 kosið.
Hjá sýslumanninum á Vesturlandi hafa 478 kosið, á Vestfjörðum hafa 239 kosið sem er jafn mikið og á Norðurlandi vestra. Rúmlega 3.300 hafa kosið erlendis.
Hann segir að um 42 þúsund hafi kosið utan kjörfundar í forsetakosningunum og ef kjörsókn verður áfram svipuð þá má gera ráð á bilinu 20-30 þúsund atkvæðum nú í lokavikunni.
Hann segir aðspurður að flestir kjósi utan kjörfundar í lokavikunni.