Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að þriðja árið í lögreglufræðum til bakkalárgráðu við Háskólann á Akureyri fái fulla fjármögnun frá og með vorönn 2025.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir að beiðni Háskólans á Akureyri hafi verið til meðferðar í ráðuneytinu frá því í nóvember 2023 og sé ákvörðunin tekin eftir viðamikið samráð við háskólanna og dómsmálaráðuneytið síðastliðið ár.
„Allt samfélagið nýtur góðs af vel menntuðum og hæfum lögreglumönnum. Full fjármögnun þriðja ársins í lögreglufræðum er ekki aðeins hagsmunamál fyrir lögreglunema heldur einnig mikilvægt fyrir starfsþróun lögreglumanna að boðið sé upp á bakkalárgráðu í þessum fræðum, sem er forsenda frekara náms á háskólastigi,“ segir Áslaug Arna.
Hún segir að með þessari ákvörðun sé verið að taka mikilvægt skref í átt að enn faglegri og öruggari löggæslu á Íslandi.
Fram kemur í tilkynningunni að ákvörðun ráðherra sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað er um mikilvægi þess að fjölga menntuðum lögreglumönnum til að auka öryggi og fagmennsku innan stéttarinnar.