Engin þyrla Landhelgisgæslunnar var til taks í skamma stund í dag vegna smávægilegs viðhalds en í millitíðinni var þyrla danska varðskipsins Trítons til taks.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að þrátt fyrir að Gæslan hafi þrjár þyrlur innan sinna vébanda séu yfirleitt tvær starfandi hverju sinni á meðan hin sé í langtímaviðhaldi.
„Þyrlur þurfa mjög mikið viðhald og þá er gert ráð fyrir því að ein af þessum þyrlum sé alltaf í langtímaviðhaldi.“
Önnur þeirra sem var starfandi hafi farið í viðhald fyrir helgi og því aðeins ein verið til taks, en í dag hafi komið upp sú staða að hún þurfti á smávægilegu viðhaldi að halda til þess að uppfylla þyrlureglugerðir. Á meðan hafi danska þyrlan verið til reiðu.
„Það er búið að gera við hana og við erum að fara með hana í prufuflug núna. Þannig þetta voru í raun og veru bara tveir tímar,“ segir Ásgeir.