Verslunarstjóri A4 í Skeifunni segir það sjást skýrt í öryggismyndavélum að einstaklingur gekk rakleiðis upp að kettinum Díegó þar sem hann svaf í bæli sínu og tók hann ófrjálsri hendi.
Atvikið hefur vakið mikinn óhug meðal fylgjenda Diegó sem deila iðulega myndum og sögum af honum í Facebook-hópnum Spottaði Diegó.
Hópurinn telur nú um 16 þúsund manns en þar spurðist fljótt út um hvarf Diegós í gærkvöldi og hafa margir lagt orð í belg varðandi mögulega atburðarás eða spurst fregna í hópnum.
Diegó er ekki villiköttur eins og margir halda heldur býr hann hjá eigendum sínum í grennd við Skeifuna og er því einungis tíður gestur í verslunum þar. Raunar svo tíður að hann á sitt eigið bæli í A4.
„Við opnum ekki fyrr en klukkan 9 en hann bíður oft hérna eftir mér fyrir utan þegar ég mæti klukkan 8,“ segir Sigurborg Þóra Sigurðardóttir, verslunarstjóri A4.
Hún segir það jaðra við að hver einasti viðskiptavinur í dag hafi spurst fyrir um fregnir af leitinni að kettinum enda sé hann afar vinsæll meðal starfsfólks og komugesta.
„Fólk er svolítið slegið yfir þessu, að það komi bara einhver og taki köttinn.“
Sigurborg og aðrir verslunarstjórar í Skeifunni litu í gegnum öryggismyndavélar sínar eftir að kona á Facebook kvaðst hafa séð manneskju með köttinn meðferðis í strætisvagni í gærkvöldi.
Segir Sigurborg upptökuna sýna manneskju ganga upp að Diegó þar sem hann sefur vært, taka hann og ganga út úr versluninni. Starfsfólk A4 kannist ekki við einstaklinginn sem sjáist á upptökunni.
„Starfsfólkið mitt var ekkert að átta sig á þessu því allt í einu var hann bara horfinn.“
Hún segist sjálf hafa haft samband við eiganda Diegó og boðið henni að tilkynna lögreglunni um upptökurnar, enda geti hún ekki afhent öryggisupptökur til annarra en lögreglunnar.
Henni skiljist einnig að haft hafi verið samband við Strætó til að óska eftir upptökum úr öryggismyndavélum.
Sigurborg segir erfitt að ímynda sér hvað vaki fyrir einstaklingi sem steli gæludýri. Það kunni alls konar að liggja þar að baki, mögulega einhver geðrænn vandi. Hún vonast fyrst og fremst til þess að Diegó finnist á vappi eða verði skilað sem allra fyrst.
„Við vonum bara að viðkomandi sjái sóma sinn í að skila kettinum.“