„Ef það þarf að fresta kosningu, í einhverri kjördeild einhvers staðar á landinu, þá er ekki hægt að telja annars staðar og birta úrslitin,“ segir Ari Karlsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Spáð er leiðindaveðri á laugardag og hafa því orðið vangaveltur um möguleg áhrif þess á komandi kosningar og kosninganóttina.
Versta veðrinu er spáð á Norðvesturlandi.
Í samtali við mbl.is segir Ari að kjörstjórnir búi sig nú undir ýmiss konar aðstæður en að enn sé miðað við óbreyttar áætlanir.
„Þetta hefur verið samráð á milli okkar og landskjörstjórnar um mismunandi sviðsmyndir og síðan þurfum við bara að skoða veðurspána og hvernig úr rætist,“ segir hann.
Spurður um mögulegar tafir, og hvort að úrslit kosninganna gætu hreinlega legið fyrir seinna en stefnt er að, segist hann ekki geta sagt til um það en bendir á heimild í kosningalögum til þess að skipa umdæmiskjörstjórnir.
„Tvær í hverju kjördæmi með samþykki landskjörstjórnar. Þannig að yfirkjörstjórn getur myndað eina umdæmiskjörstjórn og ákveðið umdæmi hennar og þá falið henni að sjá um talningu,“ segir Ari.
„Síðan er hægt að vera með tvær [umdæmiskjörstjórnir] í hverju kjördæmi ef landskjörstjórn samþykkir þessa síðari.“
Ein sviðsmynd sem t.d. er í undirbúningi er viðbragð við samgöngutruflunum á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða til Borgarness.
Hann segir að miðað sé við að atkvæði verði talin á sama tíma en til þess þurfi að fá þau í hús.
„Ef það gengur hægt þá mun það náttúrulega hægja á tölum,“ segir Ari og nefnir að til dæmis gætu verið hálkublettir á vegum og þá keyri fólk hægar.
„Þá veldur það seinkun hjá okkur og ef sú seinkun er mikil þá þurfum við náttúrulega að sjá til með hvernig sé hægt að gera þetta. Af því að kjördæmið er bara með eitt sett af talningafólki. Við erum ekki með vaktaskipti.“
Fylgjast þurfi einnig vel með veðurspánni því mikilvægt er að fólk komist á kjörstað til að kjósa.
„Ef það er þannig að það er mjög vont veður þá gæti yfirkjörstjórnin þurft að taka afstöðu til þess hvort það ætti að fresta kjörfundi einhvers staðar.“
Myndi það þýða að ekki væri hægt að telja atkvæði annars staðar á landinu og birta úrslitin fyrr en búið væri að halda kosningarnar í því kjördæmi þar sem kjörfundi var frestað.
„Þannig það eru alls konar sviðsmyndir. Það er bara okkar hlutverk. Við erum í samráði við landskjörstjórn sem er í samráði við viðbragðsaðila.“
Segir Ari að fundað verði í vikunni og nefnir að fyrsti samráðsfundur verði á morgun. Þá hafi verið samið við björgunarsveitir um að flytja gögnin þar sem búnaður og bílar þeirra höndli betur veðrið.
Hann tekur þó fram að enn sé fyrirhugað að reyna að halda ferlinu óbreyttu og nefnir að þá gætu fyrstu tölur legið fyrir á miðnætti laugardags og lokatölur legið fyrir á hádegi á sunnudeginum ef allt verður án vandkvæða.
„Ef það verða einhverjar breytingar þá þurfum við náttúrulega að láta vita af þeim,“ segir formaðurinn. Vissulega sé þetta áskorun og að framhaldið ráðist af spám Veðurstofunnar.
Ari hefur lengi verið viðriðinn kosningar og segir fólk sem starfi við ferlið vera úrræðagott.
„Þannig að maður segir stundum að það er ekki vandamál í framkvæmd kosninga, fólk leysir málin,“ segir hann.
„Við sjáum þetta betur þegar það líður á vikuna.“