Dr. Ender Demir hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Í tilkynningu skólans segir að Dr. Ender Demir sé afkastamikill vísindamaður sem hafi m.a. verið á lista Clarivate árið 2023 yfir þá vísindamenn í heiminum sem mest er vitnað til.
„Þá er hann reyndur kennari sem hefur reynst deildinni vel og lagt sitt af mörkum bæði innan fræðasamfélagsins og fagfélaga,“ segir í tilkynningunni.
Í nefndinni sem mat hæfi Dr. Demir sátu Dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, Dr. Marieke Bos, dósent við Vrije Universiteit í Amsterdam og Stockholm School of Economics og aðstoðarforstjóri Swedish House of Finance í Stokkhólmi, og Dr. Úlf Viðar Níelsson, dósent við viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) og Háskóla Íslands.
„Það er mat nefndarinnar að Dr. Ender Demir hafi fest sig í sessi sem fræðimaður á sínu sviði og skapað sér gott orðspor á alþjóðlegum vettvangi.“