Lögreglumenn sem óku eftir Sæbraut í Reykjavík á mánudagskvöldið fyrir viku síðan urðu vitni að því þegar vígahnöttur birtist í skamma stund á himni, en fyrirbærið náðist á mynd í myndavél í lögreglubifreiðinni. Er um að ræða bjart loftsteinahrap.
Í færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu má sjá myndbandið, en það var tekið upp klukkan 21.23 að kvöldi mánudagsins 18. nóvember.
Óskaði lögreglan skýringa hjá Sævari Helga Bragasyni sem upplýsti að um hefði verið að ræða vígahnött sem sprakk yfir hafinu sunnan Íslands. Birtist skær ljósblossi sem sprakk, en vígahnettir eru skær loftsteinahröp og verða þau m.a. skærari en reikistjarnan Venus.
Steinarnir koma á miklum hraða inn í andrúmsloft Jarðar, á meira en 11 km/s hraða, og þegar þeir ryðja lofti á undan sér byrjar það að glóa. Eftir stutta stund stenst steinninn ekki álagið og springur í tug kílómetra hæð.
Telur Sævar að miðað við hæð vígahnattarins yfir sjóndeildarhring hafi hann líklegast sprungið í um 300 km fjarlægð frá Íslandi. Eru steinar sem þessir afar litlir, eða á stærð við ber eða lítinn ávöxt.