Sendi nektarmyndir af dreng sem hann passaði

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir …
Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tveimur vikum. mbl.is/Karítas

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að taka myndir af berum kynfærum og rassi sofandi drengs sem hann var að passa og síðar sent myndirnar til konu í kynferðislegum tilgangi.

Verjandi mannsins er jafnframt gagnrýndur í dómi málsins fyrir of umfangsmikla vinnu og mikinn fjölda klukkustunda sem rukkað var fyrir, auk þess sem málflutningsræða hans hafi að mestu verið um atriði sem féllu utan við sakarefnið.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem kveðinn var upp fyrir tveimur vikum en birtur í dag, kemur fram að maðurinn hafi upphaflega komist í kynni við móður drengsins og aðstoðað við að gæta barna hennar og við að greiða húsaleigu.

Tilkynnti manninn eftir að hann sendi nektarmyndirnar

Móðirin seldi síðar annarri konu stóla og borð og aðstoðaði maðurinn við flutning á því og að tengja uppþvottavél. Hóf hann einnig að aðstoða konuna sem keypti stólana og borðið meðal annars við innkaup og fleira. Hófu þau svo að ræða saman á WhatsApp samskiptaforritinu, en fram kemur í dóminum að þau samskipti hafi að einhverju leyti verið að kynferðislegum toga.

Nokkrum dögum síðar var hann í samskiptum við konuna í gegnum WhatsApp og sendi henni meðal annars nektarmyndir af sofandi drengnum. Eyddi hann hluta skilaboðanna, en konan hafði náð að taka mynd af hluta skilaboðanna áður en þeim var eytt. Tilkynnti hún manninn í kjölfarið til lögreglu og var farið í húsleit hjá honum og fundust þá umræddar myndir.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að á tveimur myndanna hafi aðalefni þeirra verið kynfæri eða rass drengsins og á einni myndinni hafi einnig annað barn legið.

Passaði drenginn

Upplýst var að maðurinn hafði passað börn móðurinnar og tekið umræddar myndir. Sagðist maðurinn óvart hafa sent myndirnar á hina konuna og að hann sæi mikið eftir því. Sagði hann að konan hefði beðið sig um að tala á kynferðislegum nótum við sig á Whatsapp, en að tilgangur hans með myndasendingunni hafi verið að sýna henni að hann þyrfti að gæta þess að drengurinn pissaði ekki í rúmið. Viðurkenndi hann jafnframt að móðir drengsins hafi ekki vitað af því að hann hefði tekið myndir af drengnum, en hún var ekki heima þegar myndirnar voru teknar.

Sagðist hann hafa kynnst móðurinni, sem flutti til landsins ári fyrir atburðinn, og að hann hefði aðstoðað hana meðal annars með að greiða húsaleigu. Hefðu þau átt í ástarsambandi en væru ekki lengur í sambandi.

Móðirin sagði í fyrstu yfirheyrslu lögreglu að maðurinn myndi aldrei gera neitt við drengina og að málið væri á misskilningi byggt.

Sagði móðurina nýta sér góðvild sína

Maðurinn upplýsti að hann hefði kynnst móðurinni eftir að dóttir hans fór að passa fyrir hana. Dóttirin hefði hins vegar hætt því og hann stigið inn í hlutverkið. Sagði hann móðurina svo hafa nýtt sér góðvild sína og gengið á lagið meðal annars varðandi fjármál hans og farið að gera kröfur um allskonar greiða.

Sagðist hann hafa verið undir hæl konunnar og meðal annars óttast að hún myndi segja fjölskyldu hans og vinnuveitendum frá því að hann hefði tapað peningum í viðskiptum. Þá sagðist hann fyrir dómi ekki vita hvernig myndirnar hefðu endað inn á síma hjá sér, en sagði konuna stundum hafa verið með aðgang að símanum.

Fyrrverandi eiginkona mannsins sagði fyrir dómi að hún hefði upplýst lögregluna um að hún teldi hann vera með röskun sem litaði það hvernig hann sæi umheiminn, hann ætti erfitt með að segja nei við fólk og ætti einnig í erfiðleikum með að átta sig á félagslegum samskiptum. Hann væri mjög umhyggjusamur en ætti erfitt með að setja öðrum mörk.

Útskýringin sögð farsakennd

Vísað er til samskipta mannsins og konunnar sem hann sendi myndirnar. Hann hafi í samskiptunum lýst því hvernig hann þyrfti að fara með son hennar á salerni til að láta hann pissa og síðar sent henni mynd af drengnum nöktum liggjandi í rúminu. Lýsti konan því að henni hafi þótt þetta skrítið og ógeðslegt en hann hafi sagt að hann teldi hana myndu „fíla“ þetta. Konan hafi í kjölfarið tekið skjáskot af myndsendingunum og svo látið lögregluna vita.

Í dómi héraðsdóms er sagt einstaklega ótrúverðugt og hreint út sagt farsakennt að móðir drengsins hafi mögulega komist í síma mannsins, tekið af drengnum nektarmyndir og þóst vera í samskiptum við hina konuna á kynferðislegum nótum.

Þá er vísað til þess að hvítir fingur sjást á einni myndinni og gat það aðeins átt við fingur mannsins.

Er talið sannað að maðurinn hafi sjálfur tekið myndirnar og dreift þeim og að slíkt hafi verið í kynferðislegum tilgangi þegar hann ræddi við konuna. Er tekið fram að myndirnar hafi verið stuðandi nektarmyndir sem sýndu barn á kynferðislegan hátt og er tekið fram að þær hafi ekki verið eðlilegar ljósmyndir af nöktu barni sem séu refsilausar.

Ræða ekki í samhengi við sakarefni og fær hálf málsvarnarlaun

Auk þess sem maðurinn er dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi er honum gert að greiða 800 þúsund krónur í miskabætur og til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns upp á 2,3 milljónir.

Það vekur athygli að í dóminum er sérstaklega farið ofan í vinnu og tímafjölda verjandans, en hann gerði upphaflega kröfu um málsvarnarlaun upp á 4,3 milljónir. Segir í dóminum að verjandinn hafi skilað 12 blaðsíðna greinargerð og haldið málflutningsræðu sem stóð vel á aðra klukkustund, en lítið tengst sakarefninu.

„Stærstur hluti málflutnings verjandans varðaði atriði sem falla utan við sakarefni málsins og eru að mati dómsins ekki í neinu rökrænu samhengi við sakarefnið. Verjandinn lét aftur á móti hjá líða, að mestu leyti, að reifa lagalegan grundvöll málsins, sem rík þörf var á að gera grein fyrir með tilliti til hagsmuna ákærða,“ segir í dómi héraðsdóms.

Segir þar jafnframt að sakarefni og umfang málsins hafi að mati dómsins ekki gefið tilefni til allrar þeirrar vinnu sem verjandi kveðst hafa innt af hendi og að vinnan hafi að verulegu leyti fallið utan sakarefnis málsins.

„Þá voru sumar af kröfum ákærða undir rekstri málsins til þess fallnar að tefja málið og auka kostnað sem af því leiddi, án þess að tilefni væri til, svo sem krafa hans um frávísun málsins. Á hinn bóginn lét verjandi ákærða hjá líða, eins og áður segir, að flytja málið um lagaatriði,“ segir jafnframt í dóminum.

72 klst í stað 133 klst

Tekið er fram að þótt verjandi hafi ekki farið yfir hvort refsiskilyrði umræddrar lagaákvæða sem brotin voru talin varða væri fullnægt, þá hafi saksóknari hins vegar reifað þau atriði skilmerkilega og þannig gætt að hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins.

Sem fyrr segir telur dómarinn vegna þessa rétt að helminga umbeðna upphæð verjandans úr 4,3 milljónum í 2,3 milljónir. Nemur það um 72 klukkustundum í stað 133 klukkustunda sem voru á tímaskýrslu verjandans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert