„Að hér til staðar sé verslun skiptir íbúana miklu máli,“ segir Árný Huld Haraldsdóttir, kaupmaður á Reykhólum. Hún opnaði á dögunum þar í þorpinu Búðina, sem svo er kölluð, og höndlar þar með helstu nauðsynjar auk þess að bjóða upp á heitan heimilismat í hádeginu.
Þetta hefur mælst vel fyrir, en þegar Árný hóf starfsemi sína hafði ekki verið verslun á Reykhólum í heilt ár. Kallað hafði verið eftir því að opnuð yrði verslun að nýju og þegar Árný svaraði kalli fékk hún þann stuðning frá Reykhólahreppi, sem leggur til húsnæði, að leigan er endurgjaldslaus fyrsta árið.
„Eðlilega gerir fólk magninnkaup í lágvöruverðsverslunum til dæmis í Borgarnesi, en hér í þorpinu þarf fólk að geta fengið mjólk, brauð, ávexti og grænmeti, pakkavörur, hreinlætisefni, drykki, sælgæti og fleira. Þetta er ég allt með og hef ágæt kjör hjá birgjum. Kúnstin við svona rekstur felst ekki síst í slíku,“ segir Árný.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.