Stjórnmála- og jafnréttisfræðingur segir það alvarlega þróun að þungunarrof og réttur kvenna til yfirráða yfir eigin líkama hafi verið kosningamál í Bandaríkjunum.
Esther Jónsdóttir var gestur Dagmála nýverið og ræddi þar nýliðnar kosningarnar í Bandaríkjunum, komandi kosningar hér heima við og þá gjá sem virðist vera að myndast milli karla og kvenna í stjórnmálum.
Rétturinn til þungunarrofs hefur verið mikið til umræðu vestanhafs undanfarin ár og reyndist mikið baráttumál í forsetakosningunum þar.
Hún segir ekki hægt að fullyrða að orðræða og stefna Bandaríkjanna geti ekki haft áhrif víðar í alþjóðavæddu samfélagi.
„Við erum kannski ekki að fara að sjá bann á þungunarrofi en svo er það líka bara einn málaflokkur af miklu fleirum sem að þetta getur líka haft áhrif á. Bara að það séu einhver bönn sett á rétt einhvers hóps af fólki, rétt kvenna til að stjórna eigin líkama, það hefur alveg áhrif víðar.“
Skýrt sé að baráttunni sé ekki lokið og ekki hægt að ganga að því vísu að jafnrétti hafi verið náð og að áunnin réttindi séu óhagganleg.
Með því að opna á umræðu um boð og bönn á rétti fólks til að ráða yfir eigin líkama, sé einnig verið að opna á að skerða réttindi annarra hópa, einkum minnihlutahópa.
„Þetta er klárlega vígi sem getur haft mjög mikil áhrif á aðra kosningaþætti sem tengjast jafnréttismálum,“ segir Esther.
„Þegar þessu vígi er náð þá er miklu auðveldara að fara út í öfgarnar.“