„Eruð þið með sögur af kennurum við skólann sem gætu komið í minni næstu bók um verstu kennara í heimi?“ spurði breski rithöfundurinn og grínistinn David Walliams er hann mætti óvænt í Áslandsskóla í Hafnarfirði í gær og ræddi þar við nemendur og kennara. Dagurinn í gær var sá fyrsti í skólanum eftir tímabundið verkfall kennara.
Mun þetta vera fyrsti skólinn sem Walliams heimsækir hér á landi en hann hefur verið á Íslandi vegna bókahátíðarinnar Iceland Noir. Ekki stóð á viðbrögðum við spurningu Walliams, sem náði vel til krakkanna og flutti innlegg sitt á ensku og án túlks. Um 300 krakkar úr 4.-10. bekk hlýddu á rithöfundinn og höfðu gaman af.
Jónas Sigurgeirsson hjá Bókafélaginu, útgefandi verka Walliams hér, segir aðeins skólastjórann og einn kennara hafa vitað af heimsókninni. Hann spjallaði einnig við kennarana á kennarastofunni og skoðaði bókasafn skólans.