„Ég fór með Diegó heim þar sem eigandinn tók við honum, með börnum, og allir himinlifandi að sjá hann.“
Þetta segir Eygló Anna Ottesen, sjálfboðaliði hjá dýraverndarsamtökunum Dýrfinnu, í samtali við K100.
Einn þekktasti köttur landsins, Diegó, hvarf sporlaust á laugardagskvöldið, eftir að manneskja rændi honum þar sem hann lá og svaf værum svefni í versluninni A4 í Skeifunni.
Þá hafði kona einnig lýst því að hún hefði séð einstakling stíga út úr strætisvagni með Diegó við Bíó Paradís á Hverfisgötu.
„Lögreglan fór inn í heimahús við Hverfisgötuna eftir að allar ábendingarnar komu til okkar og kom svo með hann út þar sem ég beið og tók við honum.“
Hún segir Diegó vera í góðu ásigkomulagi og að þess megi vænta að hann verði mættur aftur í Skeifuna hið fyrsta. Hann hafi aftur á móti verið mjög tilbúinn til að fara heim.
Ólíkt því sem margir halda á Diegó heimili í grennd við Skeifuna en hefur gert sig heimakæran í verslunum þar og aflað sér margra aðdáenda í kjölfarið.
Eiga vinir Diegó sér Facebook-hóp undir nafninu Spottaði Diegó þar sem margir deila myndum og fregnum af kisa. Hópurinn telur um 16 þúsund manns bæði hérlendis og erlendis.
Hafa vinir Diegós verið með böggum hildar yfir hvarfinu og spjallþræðir hópsins logað undan ábendingum og fyrirspurnum um framvindu leitarinnar.
Hér má hlusta á viðtalið við Dýrfinnu í þætti Kristínar Sifjar á K100.