Flokkur fólksins eytt mestu en sumir stóla á sjálfan sig

Flokkur fólksins hefur varið mestu fé í auglýsingar en frambjóðendur …
Flokkur fólksins hefur varið mestu fé í auglýsingar en frambjóðendur hafa einnig auglýst í eigin nafni. Samsett mynd

„Það kemur á óvart hve flokkarnir voru seinir í að setja kraft í auglýsingar en hins vegar sér maður núna að þetta hefur breyst hratt enda er væntanlega titringur farinn að aukast hjá flokkunum,“ segir Agnar Freyr Gunnarsson, deildarstjóri markaðssviðs hjá Birtingahúsinu, um eyðslu stjórnmálaflokka í auglýsingar á miðlum Meta, sem eru Facebook og Instagram.

Þegar gögn Meta eru skoðuð má sjá að Flokkur fólksins er í sérflokki hvað eyðslu varðar í auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þannig hefur flokkurinn á síðustu 30 dögum varið um fimm milljónum króna í auglýsingar Facebook og Instagram.

Er það um 1,7 milljónum meira en næsti flokkur sem er Miðflokkurinn. Þar á eftir kemur Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Lýðræðisflokkurinn hefur eytt minnstu eða 22 þúsund krónum. 

Mun dýrara en áður að auglýsa 

„Flokkarnir héldu lengi í sér áður en þeir byrjuðu af miklum krafti. En flokkarnir eru í smá vanda varðandi kostnað því CPM-verðið (kostnaður við að ná til þúsund manns) er meira en tvöfalt það sem það var í fyrra. Ástæðan fyrir því er sú að við erum í Black Friday-viku og fyrirtækin auglýsa grimmt líka. Þetta er sá tími sem auglýsendur eru að auglýsa hvað mest,“ segir Agnar.

Hann segir þetta koma niður á minni aðilum sem þurfa að leggja í meiri tilkostnað til þess að ná til fólks.

Agnar Freyr Gunnarsson er deildarstjóri netmarkaðsmála hjá Birtingahúsinu.
Agnar Freyr Gunnarsson er deildarstjóri netmarkaðsmála hjá Birtingahúsinu.

Ásmundur Einar varið mestu í sjálfan sig 

Nýjustu tölur sem Meta býður upp á ná til 22. nóvember. Fram kemur að auk þess sem stjórnmálaflokkarnir veita fé í auglýsingar eru einstaka frambjóðendur einnig að auglýsa í sínu nafni.

Þar hefur Ásmundur Einar Daðason úr Framsóknarflokki vinninginn en hann hefur lagt rúmlega 280 þúsund krónur í að auglýsa sig.

Þar á eftir koma þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir úr Sjálfstæðisflokki og Jóhann Páll Jóhannsson úr Samfylkingu sem varið hafa um 160 þúsund krónum í auglýsingar á sjálfum sér. Þetta þykja þó ekki háar upphæðir. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Jóhann Páll Jóhannsson …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Jóhann Páll Jóhannsson hafa nýtt sér samfélagsmiðla til að auglýsa sig. Samsett mynd

Auglýsa líka í kjördæmunum 

Auglýsingar flokkanna segja ekki alla söguna. Þannig hafa Sjálfstæðismenn í Suður-, Norðvestur- og Norðausturkjördæmi lagt tæpa milljón króna í að auglýsa flokkinn samanlagt í kjördæmunum.

Svipað er uppi á teningnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi og Kraganum þar sem auglýsingar flokkanna hafa verið upp á rúmlega 400 þúsund krónur.

Þá hafa Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi varið um 275 þúsund krónum í auglýsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert