Samfylkingin hefur fjarlægt kosningaauglýsingu á samfélagsmiðlum þar sem flokkurinn notaði hljóðbrot úr laginu Wrecking Ball eftir bandarísku tónlistarkonuna Miley Cyrus. Ástæðan er sú notkunin „gæti verið á ótryggu svæði gagnvart höfundarrétti.“
Þetta segir Katrín Júlíusdóttir, kosningastjóri Samfylkingarinnar, við fyrirspurn mbl.is.
„Okkur hefur verið bent á að notkun á hljóðbroti í samfélagsmiðlaefni, þar sem fjallað er um hvernig Samfylkingin ætlar að berja niður vextina, gæti verið á ótryggu svæði gagnvart höfundarrétti sem við tökum að sjálfsögðu alvarlega og munum bregðast við í samræmi við það,“ skrifar Katrín.
Auglýsingin hefur verið tekin niður af samfélagsmiðlum en í henni má sjá Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, með stóra sleggju sér í hönd þar sem hún sýnir á myndrænan hátt hvernig hún ætlar berja niður vextina.
Svo fer lagið Wrecking Ball með Miley Cyrus í gang, en í því tónlistarmyndbandi er Cyrus einmitt með stóra sleggju eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.
„Í þessari kosningabaráttu eins og áður leggjum við okkur fram um að gæta að höfundar- og sæmdarrétti og umgangast höfunda og verk þeirra af þeirri virðingu sem þeim ber,“ skrifar Katrín.