Innbrotið í Elko: Fer fljótlega til ákærusviðs

Verðmæti þýfisins úr Elko nemur tugum milljóna króna.
Verðmæti þýfisins úr Elko nemur tugum milljóna króna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innbrot í verslunum Elko í Skeifunni og í Lindum í september síðastliðinn er enn til rannsóknar hjá lögreglu.

Verðmæti þýfisins sem stolið var úr verslununum nemur tugum milljóna króna en stór hluti þess voru farsímar.

„Málið er enn í rannsókn og það er verið að fylgja eftir einhverjum vísbendingum áður en málið verður sent til ákærusviðs sem verður fljótlega,“ segir Sigrún Kristín Jónasdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.

Fjögur voru í haldi

Hún segir að skýrsla hafi verið tekin af nokkrum aðilum vegna málsins en þrír karlmenn og ein kona voru í haldi vegna málsins en var sleppt úr haldi í byrjun október. Þau eru öll af erlendu bergi brotin og eru ekki með íslenskan ríkisborgararétt. Alls voru sjö handteknir í tengslum við þjófnaðinn en þremur var sleppt eftir yfirheyrslur.

Tekist hefur að endurheimta lítinn hluta þýfisins að sögn Sigrúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert