„Þetta er svona greiningar- og meðferðarstöð þar sem verið er að greina, kortleggja og koma með leiðbeiningar til foreldra og barnaverndar um áframhaldandi stuðning,“ segir Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, um meðferðarheimilið Blönduhlíð sem opnaði í dag.
Meðferðarheimilið er fyrir ungmenni á aldrinum 13–18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður rekið af Barna- og fjölskyldustofu og er staðsett á Farsældartúni í Mosfellsbæ.
Í samtali við mbl.is segir Ólöf að meðferðarheimilið muni horfa til barna sem glími við vægari hegðunar- og fíknivanda en önnur.
„Hugmyndin er sú að hafa meðferðar- og greiningarstöð hér og líka á Stuðlum og að Stuðlar taki við þyngri hópnum og eldri hópnum en við getum þá haft þá yngri hér en metum það í hvert skipti,“ segir Ólöf og heldur áfram.
„Við erum að reyna að passa að aðgreina aðeins, að við séum ekki að setja kannski 13 ára unglinga saman með þeim sem eru alveg að verða 18 ára. Þetta er rosalegur munur á hvað þau eru komin langt, jafnvel í neyslu- eða hegðunarvanda.“
Þá verður reynt að virkja þá sem dvelja í Blönduhlíð og nýtt landslið t.d. fyrir einhvers konar íþróttir en einnig verður skóli á meðferðarheimilinu og sálfræðingur sem verður með viðtalstíma.
Hve margir fá pláss, verða biðlistar?
„Við erum náttúrlega að vona að það verði ekki mikið um biðlista. Hérna verða fimm rými og við áætlum að meðferðardeild Stuðla, þar verði líka fimm rými,“ segir Ólöf og bætir við.
„Hér verður svona greining og meðferð í 8-12 vikur. Eftir því hver vandi barnsins er og þá notum við tímann til þess að vinna og áætla hversu langan tíma barnið þarf.“
Segir hún að sum börn munu kannski þurfa langtímameðferð og þá tæki meðferðarheimilið Lækjarbakki við drengjum og meðferðarheimilið Bjargey við stúlkum og væri á þeim heimilum boðið upp á 6-12 mánaða meðferð.
Greint hefur verið frá að Lækjarbakki hafi fengið nýtt húsnæði í Miðgarði í Gunnarsholti á Rangárvöllum og segir Ólöf að Barna- og fjölskyldustofa fái húsnæðið afhent eftir helgi ef allt gengur eftir óskum.
Þá geti meðferðarheimilið mögulega opnað dyr sínar í janúar.
Þá sé gert ráð fyrir að það verði eftirfylgni frá Blönduhlíð.
„Við erum að útbúa sérstakt meðferðarteymi með sálfræðingum sem mun sinna öllum okkar meðferðarheimilum sem munu síðan geta passað upp á samfellu, þ.e. ef þú byrjar hér og færir svo í langtímameðferð að það væri samfella á milli í meðferð og þú værir í raun ekki að byrja upp á nýtt.“
Spurð um stöðuna á Stuðlum í dag og hvernig það meðferðarheimili verði nýtt í kjölfar brunans sem þar varð í lok október segir Ólöf að tvö rými í álmunni sem þar brann hafi ekki brunnið og séu nýtt.
Sú álma var fyrir svokallaða neyðarvistun en hefur einnig verið tekin tvö rými af meðferðardeild heimilisins sem eru nýtt fyrir neyðarvistun.
„Svo tökum við allra erfiðasta skjólstæðingahópinn inn á Flatahraun. Það eru börn sem eru í afbrotum, eru í mikilli neyslu og eru hættuleg sér og öðrum.“
Þar dvelji börn í sólarhring eða tvo á meðan verið sé að ná þeim niður og séu þau svo færð til neyðarvistunar á Stuðla þar sem einnig séu svo í boði fjögur meðferðarpláss.
Hún segir nú Barna- fjölskyldustofu vera að bíða eftir að framkvæmdir hefjist vegna brunans.
„Það er búið að hreinsa út inni á neyðarvistuninni þannig ég vona að það fari af stað uppbygging núna fljótlega. Vonandi bara í næsta mánuði. En Framkvæmdasýslan er með það verkefni núna,“ segir Ólöf og heldur áfram.
„Og þá höfum við líka tækifæri til þess að breyta neyðarvistuninni og gera hana enn miðaðri við þá skjólstæðingahópa sem við erum með í dag. Því að við sjáum að þyngdin á málunum hefur aukist alveg gríðarlega.“
Heimilinu er ætlað að mæta börnum sem glíma við fjölþættan vanda og segir Ólöf aðspurð fjölþættan vanda vera þegar börn séu með margvíslegar greiningar, þá jafnvel einhvers staðar á einhverfurófi, séu með hegðunarvanda, ADHD, geðrænan vanda og jafnvel tengslarof og þurfi miklu meira á langtímaúrræði að halda.
„Þau koma oft á tíðum fyrst í meðferðarúrræði hjá okkur en svo þurfa þau í rauninni svona hægt og bítandi lengri úrræði sem eru svona litlir búsetukjarnar þar sem þeim er hjálpað við að takast á við lífið miðað við sína greiningu sem þau eru með. Þá erum við kannski að tala um til lengri tíma, kannski 1-2 ár. En alltaf með það markmið að reyna að vinna þau inn í samfélagið eða vinna þau aftur heim,“ segir Ólöf og heldur áfram.
„Það er það sem okkur langar til þess að gera og Ásmundur [Einar Daðason] hefur verið að reyna að fá af sveitarfélögunum yfir til ríkisins svo við getum haft þetta svolítið heildstætt þannig að þau geti fengið alla þjónustu hjá okkur svo við getum haft samfellu í meðferð fyrir þau.“
Hún tekur fram að lokum að með því að hafa heimilið í vinalegu umhverfi sem líti út fyrir að vera eins og heimili sé minnkaður stofnanabragur sem þar af leiðandi hjálpi börnum að vera sáttari við að vera í meðferð.
„Af því það er gríðarlega erfitt fyrir börn að taka þetta skref að vera að koma í meðferð.“