Sama rúðan brotin ítrekað í apóteki

Reykjavíkur Apótek á Seljavegi.
Reykjavíkur Apótek á Seljavegi. mbl.is

Góðkunningi lögreglunnar gerði tilraun til að brjótast inn í Apótek Reykjavíkur við Seljaveg 2 í Reykjavík í nótt en brotin var stór rúða í húsnæði apóteksins.

„Viðkomandi aðili mölbraut rúðu en náði ekki að komast inn í apótekið og hafði því ekki erindi sem erfiði,“ segir Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Ólafur segir lögregluna kannast við viðkomandi sem hafi gengist við því að hafa brotið rúðuna. Öryggiskerfi apóteksins fór í gang um klukkan fjögur í nótt og segist Ólafur hafa farið strax á staðinn sem og lögreglan.

Ólafur segir að það gerist reglulega að þessi sama rúða sé brotin. Hann segir að rúðubrotið hafi ekki nein áhrif á starfsemi apóteksins sem opnar á venjulegum tíma klukkan níu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert