Dæmi eru um að fólk tárist

Frá vinstri: Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- …
Frá vinstri: Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Guðvarður Már Gunnlaugsson skoða handrit í Eddu. mbl.is/Eyþór

Alls hafa rúmlega 4.000 manns heimsótt sýningu í Eddu – Húsi íslenskunnar um heimsmynd miðaldarmanna þar sem um 20 handrit eru til sýnis. Handritin voru flutt úr Árnagarði yfir í Eddu fyrir rúmum tveimur vikum vegna sýningarinnar.

Að sögn Ingibjargar Þórisdóttur, sviðsstjóra miðlunarsviðs hjá Árnastofnun, komu hátt í 2.000 manns á sýninguna opnunarhelgina 16. og 17. nóvember. Frá 18. nóvember og þangað til í gær mættu um 320 manns á sýninguna að meðaltali á dag.

Edda - hús íslenskunnar.
Edda - hús íslenskunnar.

Fólk er snortið 

„Við erum mjög ánægð með aðsóknina, ekki síst vegna þess að fólk er gríðarlega ánægt. Fólk hefur jafnvel tárast við að horfa á sum handritin, þau vekja þessi hughrif. Það er mjög gaman að segja frá því að fólk er virkilega snortið af þessu,“ segir Ingibjörg, spurð út í aðsóknina, og nefnir að fólk á öllum aldri komi á sýninguna til að berja handritin augum.

Skiptir ekki máli við hvern ég tala

Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor og sviðsstjóri menningarsviðs hjá Árnastofnun, tekur í sama streng og Ingibjörg varðandi áhuga almennings og segir aðsóknina hafa verið umfram það sem hann bjóst við.

„Það sem gleður okkur líka er að það virðist vera almenn ánægja. Margir eru hrifnir og sumir virkilega hrifnir. Þá virðist ekki skipta máli hvort ég tala við fyrrverandi prófessor í sagnfræði eða fólk sem er ekkert inni í fræðunum,” segir hann.

Guðrún Nordal og Lilja Alfreðsdóttir þegar handritin voru flutt frá …
Guðrún Nordal og Lilja Alfreðsdóttir þegar handritin voru flutt frá Árnagarði yfir í Eddu fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eyþór

Fyrst um sinn var frítt inn á sýninguna en núna er byrjað að rukka inn. Miðaverðið er 2.500 krónur fyrir almenna gesti en 1.200 kr. fyrir háskólanema og eldri borgara. Frítt er inn fyrir börn.

Fyrirlestrar í janúar

Ingibjörg greinir frá því að í janúar hefjast fyrirlestrar annan hvern þriðjudag og um aðra hverja helgi tengdir efni sýningarinnar.

„Við förum aðeins í kringum efnið og fáum fyrirlesara bæði utan stofnunarinnar og innan hennar til að halda einhver erindi, bæði fræðandi og skemmtileg,“ segir hún.

Handritin voru flutt í lögreglufylgd yfir í Eddu.
Handritin voru flutt í lögreglufylgd yfir í Eddu. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka