Greiða tryggingu þó lögregla hafi valdið árekstrinum

Héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu í september en Sjóvá vildi …
Héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu í september en Sjóvá vildi áfrýja málinu. Hæstiréttur neitaði áfrýjunarbeiðni tryggingastofnunarinnar.

Sjóvá þarf að greiða Ríkislögreglustjóra ábyrgðartryggingu vegna tjóns sem varð á lögreglubíl í árekstri, jafnvel þótt lögreglumaður hafi valdið árekstrinum vísvitandi til að stöðva ökuníðing.

Héraðsdómur komst að þessari niðurstöðu í september og hefur Hæstiréttur nú hafnað áfrýjunarbeiðni Sjóvár í málinu.

Þann 6. júní 2018 veitti lögregla ökumanni eftirför sem æxlaðist svo að sérsveitarmaður ók vísvitandi á bifreið ökumannsins til að stöðva hann. Á þeim tímapunkti hafði eftirförin staðið yfir í hálftíma og varðstjóri heimilað að ekið yrði á bifreiðina til að stöðva för hennar.

Lögreglubifreið skemmdist töluvert við áreksturinn og kostaði viðgerðarkostnaður tæpar 2,9 m.kr. En þegar Ríkislögreglustjóri gerði kröfu við Sjóvá um bætur úr ábyrgðartryggingu hafnaði tryggingastofnunin kröfunni á þeirri forsendu að lögreglubifreiðin hefði valdið árekstrinum af ásetningi.

Héraðsdómur féllst á að orsök árekstrarins hefði í raun verið ólögmæt háttsemi ökumanns bifreiðarinnar sem skapað hefði þær aðstæður að óhjákvæmilegt var að til árekstrar kæmi. Og sem fyrr segir hafnaði Hæstiréttur áfrýjunarbeiðni Sjóvár.

Flautaði á lögreglu, sýndi henni löngutöng og brunaði yfir á rauðu 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í september, þar sem atvikum er lýst í miklum smáatriðum, segir að eftirförin hafi hafist í framhaldi af því að ökuníðingurinn blikkaði ljósum og flautað að lögreglu án tilefnis.

Síðan hafi hann ekið bifreiðinni að hægri hlið lögreglubílsins og rétti upp löngutöng „með ósæmilegum hætti“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í september. Svo ók ökumaðurinn á brott gegn rauðu ljósi. Lögregla gaf honum merki með bláum blikkandi ljósum um að staðnæmast, en þess í stað jók ökumaðurinn hraðann.

Í dómum kemur fram að það sé ágreiningslaust að ökumaðurinn hafi  verið kominn á um 150 km hraða á klst á Bústaðavegi þar sem hámarkshraði er 60. Þá sé heldur ekki ágreiningsmál að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum örvandi efna við aksturinn.

Ók á móti umferð, þvert yfir umferðareyju og smeygði sér fram hjá naglamottu

Lögreglumenn óskuðu aðstoðar við eftirförina. Bifreiðin hafði náð 170 km hraða á klst þegar henni var ekið upp á Höfðabakkabrú og svo um tíma á móti umferð þannig að bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt þurftu að sveigja frá.

Síðar náði bifreiðin um 200 km hraða vestur eftir Vesturlandsvegi. Á hringtorgi við Baugshlíð í Mosfellsbæ beygði ökumaðurinn gegn akstursstefnu og virtist ætla að snúa við vestur Vesturlandsveg.

En þá var bíl lögreglunnar af tegundinni Ford Explorer ekið utan í bíl ökuníðingsins með þeim afleiðingum að hann snerist við. Ekki staðnæmdist þó bifreiðin, heldur var henni ekið þvert yfir umferðareyju og yfir á akbrautina austur Vesturlandsveg.

Þegar komið var út í Kjós tókst ökumanninum að keyra fram hjá naglamottu sem lögregla hafði komið fyrir. Sérsveitarmaður sem ók lögreglubifreið greip þá til til þess ráðs að slökkva á ljósum bifreiðarinnar. Við það hægði ökumaðurinn á sér.

Sérsveitarmaðurinn ók síðan á vinstra afturhorn bílsins með þeim afleiðinum að hún snerist og fór út af veginum. Lauk þar með eftirförinni sem þá hafði staðið í um 30 mínútur. 

Ákæra gegn ökumanninum var gefin út í júní 2020 en sakamálið var fellt niður eftir að hann lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka