Hættumat lækkað fyrir Svartsengi og Grindavík

Vika er liðin frá því eldgosið við Sundhnúkagíga hófst.
Vika er liðin frá því eldgosið við Sundhnúkagíga hófst. mbl.is/Hákon

Veðurstofa Íslands hefur lækkað hættumat fyrir Svartsengi og Grindavík miðað við þróun eldgossins undanfarna daga og gasdreifingarspá.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að helsta sé á svæði 1 (Svartsengi) þar sem heildarhætta er nú metin töluverð (appelsínugult) en var áður mikil (rautt) og á svæði 4 (Grindavík) þar sem heildarhætta var áður töluverð (appelsínugult) en er nú metin nokkur (gult). Nýtt hættumat Veðurstofunnar gildir að öllu óbreyttu til 29. nóvember.

„Gosið hefur haldið áfram af jöfnum krafti síðasta sólahring. Gosórói hefur haldist stöðugur undanfarinn sólarhring og hrauntaumurinn frá gígnum flæðir til austurs í átt að Fagradalsfjalli,“ segir í tilkynningunni.

Sig umhverfis Svartsengi hefur minnkað

Fram kemur að með minnkandi gosvirkni hefur sig umhverfis Svartsengi minnkað en þar sem breytingar á milli daga eru smávægilegar, þarf að skoða þróunina yfir nokkra daga til að meta hvort landris sé hafið að nýju.

Nýtt hættumatskort var gefið út í dag.
Nýtt hættumatskort var gefið út í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Í síðustu tveimur gosum tók það rúma viku áður en landris varð greinilegt eftir að sig hægði á sér. Því er líklegt að viðbótarmælingar í allt að viku verði nauðsynlegar til að meta hvort kvikusöfnun undir Svartsengi muni halda áfram.

Gasmengun gæti borist til höfuðborgarsvæðisins

Spá veðurvaktar um gasdreifingu mun  mengun mun berast til norðausturs, mögulega á höfuðborgarsvæðið. Í kvöld snýst vindur í vestanátt og síðar norðvestanátt, sem mun færa mengunina til austurs og síðan suðausturs. 

Á morgun er spáð norðaustanátt, og mun mengun þá berast til suðvesturs. Ekki er gert ráð fyrir gróðureldum á gosstöðvunum. Gasdreifingarspá má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka