Haraldur: Þörf á uppbyggingunni

Haraldur L. Haraldsson, stjórnarformaður Farsældartúns, við opnun Blönduhlíðar í gær.
Haraldur L. Haraldsson, stjórnarformaður Farsældartúns, við opnun Blönduhlíðar í gær. mbl.is/Karítas

Haraldur L. Haraldsson, stjórnarformaður Farsældartúns, segir þörf á uppbyggingunni í Farsældartúni þar sem nýtt meðferðarheimili fyrir börn var opnað í gær.

Hann segir tvö ár liðin frá því að umræðan hófst um uppbygginguna en hún hafi síðan farið í alvarlegan farveg um áramótin.

Unnið að deiliskipulagi

Á svæðinu mun rísa ný byggð sem á að hýsa fólk sem veitir börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu.

Segir hann starfshóp hafa verið skipaðan sem vinni að deiluskipulagi fyrir svæðið. Bindur hann vonir við að það verði klárt í vor.

„Þannig að um mitt ár verði hægt að hefja undirbúning að framkvæmdum hérna og vonandi munum við þá kannski sjá fyrstu nýbyggingar koma eftir 3-4 ár. Síðan sér maður fyrir sér að hér verði uppbygging sem mun standa yfir í kannski 5-10 ár.“

Meðferðarheimilið Blönduhlíð.
Meðferðarheimilið Blönduhlíð. mbl.is/Karítas

Þörfin á bak við hugmyndina

Af hverju þessi hugmynd?

„Ég held að það sé nú þörfin. Hvað mig varðar þá stýrði ég starfshópi sem var að vinna á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins um hvernig væri hægt að leysa þessi mál varðandi börn með fjölþættan vanda.“

Segir hann að skýrslu hafi verið skilað í lok síðasta árs og svo hafi málið farið að þróast. Hann sjálfur hafi þá verið farinn að vinna með Ásmundi Einari, mennta- og barnamálaráðherra, í þessum málum.

Skálatún varð Farsældartún

Greint hefur verið frá að á svæði Skálatúns í Mosfellsbæ hafi um árabil verið rekin þjónusta fyrir fatlað fólk. Árið 2023 lét fyrrverandi rekstraraðili, IOGT á Íslandi, af rekstrinum og Mosfellsbær tók við þjónustu við íbúa.

Á sama tíma var ákveðið að eignarhald fasteigna á svæðinu rynni til þá óstofnaðrar sjálfseignarstofnunar sem fékk síðar nafnið Skálatún, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.

Eftir nafnasamkeppni þar sem almenningi var veitt tækifæri til þess að leggja til heiti á svæðinu sjálfu var nafninu breytt í Farsældartún.

Miklir möguleikar á svæðinu

Haraldur segir að þegar IOGT hafi látið af rekstrinum hafi um merkilega gjöf verið að ræða þar sem verið er að byggja upp þjónustu fyrir börn sem muni innihalda bæði einkaaðila og opinbera aðila.

„Hér væri þá hægt að samnýta þá þekkingu sem væri þá komin á einn stað og fólk gæti þá leitað á þennan stað heldur en að þurfa að fara á marga staði.“

Þá nefnir hann einnig að uppbyggingin muni leiða af sér samlegðaráhrif sem hægt væri að nýta með sameiginlegri fundaraðstöðu fyrir aðila svæðisins og þá einnig í þjónustu og nefnir Haraldur íþróttasal fyrir börnin sem dæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka