Hraunflæði í átt að Svartsengi lokið í bili

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að hraunflæðið til …
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að hraunflæðið til vesturs í átt að Svartsengi sé lokið í bili. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert

Í dag er ein vika liðin frá því að eldgosið hófst á Sundhnúkagígaröðinni, það sjötta á gígaröðinni á þessu ári og það sjöunda frá því í desember á síðasta ári. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segist ekki sjá nein merki þess að gosum á Sundhnúkagígaröðinni sé að ljúka.

Kristín Jóndóttir segir að gosvirknin hafi haldist nokkuð svipuð síðustu daga en hún er aðeins bundin við nyrsta gíginn eftir að virknin lognaðist út af í syðsta gígnum í gær.

„Hraunið núna er greinilega að renna til austurs og við sjáum ekki annað á vefmyndavélum en að hraunflæðinu til vesturs í átt að Svartsengi sé lokið í bili,“ segir Kristín við mbl.is.

Kristín segir að það sé þó óstaðfest þar sem það þurfi að gera mælingar til að staðfesta það. Hún segir að verkefnið nú sé að setja upp betri vefmyndavélar til að geta fylgst betur með nyrsta gígnum.

„Hraunið er búið að renna yfir slóð upp að Fagradalsfjalli sem gerir erfiðara fyrir okkur varðandi aðgengi að tækjum og hraunflæðilíkan miðar við að gosið haldi áfram næstu tvær vikurnar í þessum sama gíg. Þá verður hraunflæðið til austurs og norður en ekki í átt að Svartsengi sem eru góðar fréttir,“ segir hún.

Eru vísbendingar um landris?

„Það er smá óvissa í GPS gögnunum en það bendir til þess að þetta sé að ná jafnvægi milli innflæðis að neðan og útstreymis. Hraunið sem er að koma er svona nokkurn veginn í jafnvægi við það sem er að koma inn í kerfið að neðan. Við förum að sjá þetta jafnvægi á næstu dögum.“

Getur haldið áfram að malla í langan tíma

Kristín segir að gosið geti haldið áfram að malla í nokkrum rúmmetrum á sekúndu í langan tíma en það sé erfitt að spá fyrir um það hversu lengi það komi til með að standa yfir.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort það sé að líða að einhverjum þolmörkum varðandi gos á Sundhnúkagígaröðinni. Hvert er þitt mat?

„Ég held að það sé ekkert sem bendi til þess núna og við sjáum ekki að þetta streymi að neðan sé að hætta.“

Kristín segir að í dag sé greinileg gasmengun á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn frá því gosið hófst á miðvikudaginn í síðustu viku en hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgæði.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka