Svartsengislína: Líklega aftur í rekstur fyrir helgi

Við Svartsengi í morgun. Mastrið er 29 metrar á hæð …
Við Svartsengi í morgun. Mastrið er 29 metrar á hæð og hafið á milli 440 metrar. Ljósmynd/Landsnet

Starfsmenn Landsnets hafa staðið í ströngu síðustu daga við að koma upp nýju rafmagnsmastri innan varnargarðsins við Svartsengi. Í gærkvöld lauk vinnu við að reisa mastrið í Svartsengislínu og vonir standa til að koma línunni aftur í rekstur fyrir helgina.

Svartsengislína 1 fór úr rekstri þegar hraun rann undir línuna á fimmtudaginn, daginn eftir að eldgosið hófst við Sundhnúkagígaröðina. Keyrt hefur verið á varaafli en þrjár varaaflsvélar eru komnar til Grindavíkur.

Draga línuna yfir hraunið í dag

„Það kláraðist að setja mastrið saman í gær og starfsmenn enduðu kvöldið með að reisa það. Í morgun hófst vinna við að stilla það af og fínpússa vinnu gærkvöldsins og í framhaldinu verður farið að draga vírinn yfir hraunið og að strengja. Þessi vinna er háð því að vinna í dagsbirtu,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, við mbl.is.

Hún segir að vinnan hafi gengið afar vel og bjartsýni ríki yfir því að hægt verði að taka línuna aftur í rekstur fyrir helgi ef allt gengur að óskum.

Frábært verk við erfiðar aðstæður

„Við vonum að veður, mengun og eldgosið verði til friðs. Það er alveg óhætt að hrósa mínu fólki fyrir frábært verk við erfiðar aðstæður en stór hluti af okkar fólki vinnur í kringum þetta verkefni með einum eða öðrum hætti,“ segir Steinunn.

Hún segir að einn af þeim hlutum sem hafi flýtt fyrir vinnunni sé að Landsnet hafi átt mastur og hægt sé að draga línuna yfir hraunið án þess að notast við þyrlu þó svo að hún hafi verið til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka