„Við erum gríðarlega sátt við þessa áætlun. Nú þurfum við bara að halda áfram og byggja ofan á það góða starf sem hefur verið unnið,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun var tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Þór er ánægður með stöðuna og segir áætlunina sýna vel að mikil umskipti hafi orðið í grunnrekstri sveitarfélagsins.
Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur af A-hluta verði ellefu milljónir króna og 154 milljóna afgangur verði af samstæðu. Það er rekstrarbati um 800 milljónir króna á milli ára að sögn bæjarstjórans. Þá segir Þór að veltufé frá rekstri samstæðu styrkist umtalsvert á milli ára. Það er nú 764 milljónir króna borið saman við 211 milljónir á þessu ári þegar mygluframkvæmdir stóðu sem hæst. Nemur veltufé frá rekstri í lok árs um 11%. Framlegðarhlutfall af rekstri er 8,8% að því er fram kom á fundi bæjarstjórnar.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.