Hvað segja leiðtogarnir um Evrópusambandsaðild?

Um víðan völl var farið í kappræðum dagsins.
Um víðan völl var farið í kappræðum dagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru á milli leiðtoga stjórnmálaflokkanna þegar kemur að því hvort eigi að endurnýja aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Allir leiðtogarnir voru mættir til að taka þátt í kappræðum í Hádegismóum í dag.

Kappræðunum var skipt í tvær umferðir og voru mætt í fyrri umferðina kl. 14 þau Björn Leví Gunnarsson oddviti Pírata í Reykjavík suður, Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Á tímapunkti voru leiðtogarnir beðnir um að rétta upp hönd vildu þeir endurnýja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á komandi kjörtímabili en virtist leikurinn fara fljótlega út um þúfur og í stað uppréttra handa fóru umræður í gang.

Oddviti Pírata myndi kjósa já

Fljótlega var þá breytt spurningunni í hvernig leiðtogarnir myndu kjósa í atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður og svaraði þá Björn Leví manna fyrstur.

„Ég myndi kjósa já.“

Björn Leví myndi kjósa já í atkvæðagreiðslu um aðild að …
Björn Leví myndi kjósa já í atkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þarf að vera yfirgnæfandi stuðningur

„Það vita allir sem mig þekkja og ég hef sagt þetta víða að ég hef alltaf verið Evrópusinni og ég vil auðvitað sjá hvað kemur út úr svona aðildarviðræðum,“ sagði Kristrún Frostadóttir.

Sagði hún Samfylkinguna vilja halda í vegferðina til lengri tíma og tók hún fram að hún vilji ekki standa frammi fyrir klofinni þjóð á næsta kjörtímabili.

Taka þyrfti umræðuna en tók formaðurinn fram að það þyrfti að vera einhuga hljómur í þjóðinni varðandi aðildarviðræður áður en farið væri í þessa vegferð.

„Það er munur á 52-48 og 70-30. Það þarf að vera vel yfirgnæfandi stuðningur fyrir svona vegferð.“

Sagði hún ríkisstjórnina ekki hafa efni á því á að boða til atkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili og byrja strax á því að kljúfa þjóðina í tvennt og að um væri að ræða langvarandi breytingu.

Aðspurð kvaðst hún sjálf vilja ganga í Evrópusambandið.

Kristrún Frostadóttir myndi sjálf vilja ganga í Evrópusambandið en segir …
Kristrún Frostadóttir myndi sjálf vilja ganga í Evrópusambandið en segir þörf á umræðu til lengri tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni mun berjast gegn aðild

„Ég hef aldrei talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið,“ sagði Bjarni Benediktsson.

„Þessi hugmynd um það að við getum bara kastað þessu út til þjóðarinnar og síðan skipti engu máli hvort að það sé meirihlutastuðningur við það á þinginu að leiða viðræðurnar til lykta. Hún er auðvitað galin.“

Sagðist hann lofa kjósendum að hann muni berjast gegn því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og berjast fyrir því að slík tillaga verði felld fari hún til þjóðarinnar.

„Vegna þess að við erum stjórnmálaflokkur með skoðun á þessu máli. Við teljum að þjóðinni farnist best utan Evrópusambandsins og við berjumst fyrir þeirri niðurstöðu.“

Bjarni segir Sjálfstæðisflokkinn telja að þjóðinni farnist best utan Evrópusambandsins.
Bjarni segir Sjálfstæðisflokkinn telja að þjóðinni farnist best utan Evrópusambandsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandi betur borgið utan sambandsins

„Nei, við viljum ekki ganga í Evrópusambandið en við munum ekki hafna því að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið,“ sagði Inga Sæland.

Tók hún fram að flokkurinn myndi ekki vilja að farið yrði í atkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili og að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins.

Þá lagði hún áherslu á fullveldi Íslands og sagði það ekki tímabært að fórna því.

„Ég vil bara halda áfram að vera sjálfstæð og stór og sterk og falleg þjóð.“

Inga Sæland undirstrikaði fullveldi þjóðarinnar og segist ekki vilja ganga …
Inga Sæland undirstrikaði fullveldi þjóðarinnar og segist ekki vilja ganga í Evrópusambandið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrt svar Þorgerðar

Leikurinn gekk töluvert betur í næstu umferð þar sem mætt voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalistaflokksins, og Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins.

Eftir að hafa verið spurð hvort þau myndu vilja, á komandi kjörtímabili, að aðildarviðræður við Evrópusambandið yrðu teknar upp á ný var Þorgerður Katrín sú eina sem lyfti hönd sinni og lét það nægja.

Þorgerður Katrín tjáði sig með uppréttri hönd líkt og leikurinn …
Þorgerður Katrín tjáði sig með uppréttri hönd líkt og leikurinn bað um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilji þjóðarinnar eigi að ráða

„Ef það er skýr vilji þjóðarinnar,“ sagði Sanna Magdalena.

„Ég gæti haldið langa ræðu um af hverju við ættum ekki að gera það en þá eyðilegg ég leikinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Aðrar hendur héldust niðri og þar við sat.

Sanna Magdalena segir að fara eigi í aðildarviðræður sé það …
Sanna Magdalena segir að fara eigi í aðildarviðræður sé það skýr vilji þjóðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka