Lát hjóna í Neskaupstað: Gæsluvarðhald framlengt

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Fallist hefur verið á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um að hafa orðið hjónum á áttræðisaldri að bana í heimahúsi í Neskaupstað í ágúst síðastliðinn.

Gæsluvarðhaldið átti að renna út á morgun en það hefur verið framlengt til 20. desember. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í 14 vikur en samkvæmt lögum um meðferð sakamála er aðeins heimilt að vista grunaða í gæsluvarðhald í 12 vikur án þess að ákæra sé gefin út gegn þeim. Hins vegar teljast skilyrði  2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála uppfyllt með vísan til almannahagsmuna.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir í samtali við mbl.is að gagna í málinu sé enn beðið en vonir standa til að þau berist eigi síðar en í næstu viku. Málið verður þá sent embætti héraðssaksóknara til afgreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka