„Versta spáin virðist vera að rætast“

Gestur Jónsson yfirkjörstjórnarformaður á Norðausturlandi er sultuslakur yfir kosningunum en …
Gestur Jónsson yfirkjörstjórnarformaður á Norðausturlandi er sultuslakur yfir kosningunum en tekur fram að ekki komi til greina að stefna lífi og limum fólks í hættu. Samsett mynd

„Versta spáin virðist vera að rætast en við ætlum að halda okkar áætlun, að kjörfundur verði opnaður á auglýstum tíma í fyrramálið og svo tökum við stöðuna með heimamönnum fyrir hádegi,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar norðausturkjördæmis, við mbl.is um stöðu mála í kjördæminu þar sem veður gæti gert kjósendum skráveifu á morgun.

Hefur Veðurstofa Íslands gefið út gula viðvörun fyrir stóra hluta landsins á morgun og fram á sunnudag.

Á Norðurlandi eystra hljóðar spáin upp á 10 til 18 metra vindhraða miðað við sekúndu með snjókomu og skafrenningi, léleg akstursskilyrði og mögulega ófærð á vegum.

Gæti þurft að fresta talningu

Á Austurlandi að Glettingi – en Glettingur er á milli Loðmundarfjarðar og Borgarfjarðar eystri fyrir þá sem löngum hafa velt því fyrir sér – er spáð hríð og gul viðvörun gildir frá klukkan sjö í fyrramálið og til átta að morgni fullveldisdagsins 1. desember á sunnudaginn. Léleg akstursskilyrði og möguleg ófærð á vegum þar eins og á Norðurlandi eystra.

„Ef menn telja að þeir geti haft kjörfund og haldið opnu munum við bara ljúka kjörfundi og síðan sjáum við til hvernig gengur að safna kjörgögnum á talningarstað, það gæti þurft að fresta talningu fram á sunnudag,“ segir Gestur.

En það var röð út úr dyrum í utankjörstaðaratkvæðagreiðslu á Egilsstöðum í dag?

„Já, það hefur verið gríðarleg þátttaka í utankjörfundaratkvæðum, ég hef raunar verið á fullu við annað í dag, það eru sýslumenn sem stjórna þessu hver í sínu umdæmi,“ segir Gestur sem greindi frá því í nýlegu spjalli við mbl.is að eftir 50 ára feril við kjörstjórn lyki hann ferli sínum með alþingiskosningunum 30. nóvember 2024.

Hættir með hvelli

Þannig að það má segja að þú ljúkir þinni hálfu öld á þessum vettvangi með eftirminnilegum hætti.

„Já já,“ segir Gestur og hlær, „það er ekkert hægt að kvarta yfir þessu, þetta er bara verkefnavinna, en það er leiðinlegt gagnvart kjósendum hvað þetta verður erfitt eflaust fyrir þá. Við hin erum sultuslök, talningin er ekki vandamálið, það má alltaf fresta henni og verður bara að koma í ljós hvort hún verði seint um nóttina eða daginn eftir, við munum ekki leggja líf og limi fólks í hættu við að koma kjörgögnum til okkar,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar norðausturkjördæmis, um gang mála í kjördæmi sem líkast til gustar um á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka