„Ég er farinn að venjast því að sofna inni en vakna úti. Slíkt gerðist ekki hjá okkur Soffíu í gamla daga. En nú er loksins komið að leiðarlokum hjá mér í stjórnmálum,“ segir Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Brynjar var þriðji á lista flokksins í kjördæminu en kemst ekki á þing.
„Soffía sagði við mig þegar ég vaknaði að ég hefði hvort eð er ekki getað verið á þinginu án Pírata. Ég hefði bara reytt hár mitt og klórað mig til blóðs að þurfa hlusta á alla þessa þingmenn sem ætla að gera allt fyrir alla og lækka verðbólgu og vexti í leiðinni,“ segir Brynjar í pistli á Facebook.
Segist hann hvorki sár né svekktur enda hafi hann vitað að brekkan var brött og löng. Þakkar hann sjálfstæðismönnum í kosningabaráttunni.
„Nú mun ég leita á önnur og ólík mið því andlegt og líkamlegt atgervi mitt er enn gott þótt margir gætu haldið annað.“
Brynjar segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fara í naflaskoðun eftir kosningarnar.
Ef flokkurinn ætli að vera áfram leiðandi í íslenskri pólitík þurfi hugrekki og að tala skýrt fyrir stefnumálum ásamt því að lesa eigin sal.
„Ætli ég hafi slegið nýtt met í að hætta í pólitík?“ spyr Brynjar að lokum.