Hvernig gátuð þið fundið okkur?

Dr. Kjartan Jónsson við mannfræðirannsóknir í Keníu.
Dr. Kjartan Jónsson við mannfræðirannsóknir í Keníu.

„Þegar við fórum heim 1995 voru 50 söfnuðir á svæðinu, þegar ég kom þarna í janúar á þessu ári voru þeir yfir 400. Það var mjög ánægjulegt að sjá og upplifa. Þegar ég kom þarna fyrst var kirkjan jaðarhópur en nú er hún stórveldi. Söfnuðir sem maður var efins um á sínum tíma hafa lifað og dafnað og fætt af sér aðra söfnuði.“

Þetta segir dr. Kjartan Jónsson, prestur og mannfræðingur, en hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í samtals 12 ár í Afríkuríkinu Keníu á níunda og tíunda áratugnum og boðaði kristna trú. Þess má til viðbótar geta að þessir söfnuðir hafa getið af sér um 200 grunnskóla, 40 menntaskóla og tvö munaðarleysingjaheimili.

Kjartan og eiginkona hans, Valdís Magnúsdóttir, eru á leið til …
Kjartan og eiginkona hans, Valdís Magnúsdóttir, eru á leið til Keníu um jólin. Mbl.is/Eyþór Árnason


Menntunarstigið hefur snaraukist, meðal karla og kvenna, og Kjartani hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar hann hittir börn sem hann vann með á sínum tíma en nú eru ekki bara orðin fullorðin, heldur líka háskólamenntuð og hægt að ræða við þau sem jafningja. „Möguleikar unga fólksins eru allt aðrir í dag og millistéttin í landinu hefur stækkað mikið,“ segir hann. 

Maður fyllir á alla tanka

Kjartan segir Pókot-fólkið, sem hann dvaldist hjá, upp til hópa mjög þakklátt fyrir það sem kristniboðarnir hafi gert fyrir það. „Hvernig gátuð þið fundið okkur? Þið sem búið hinum megin á hnettinum?“ spyrja sumir. „Maður fyllir á alla tanka þegar maður kemur þarna út. Fólkið er þakklátt og gleðin í söfnuðunum er svo mikil,“ segir Kjartan sem er í góðu sambandi við marga Keníumenn sem hann hefur kynnst. Sú vinátta mun duga fyrir lífstíð.

Vígalegur Pókot-stríðsmaður.
Vígalegur Pókot-stríðsmaður.


„Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til að kynnast menningu og tungu annarrar þjóðar eins vel og ég hef gert. Þetta fólk er rosalega gestrisið og umhyggjusamt og í söfnuðinum eru allir virkir, ekki bara presturinn. Mörg börn ganga í sunnudagaskóla og þátttakan í starfi kirkjunnar er miklu almennari og meiri en hér heima. Þetta starf hefur gengið mun betur en ég hefði þorað að vona.“

Ítarlega er rætt við Kjartan í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert