Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tilkynnti eftir fund sinn með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, að þær hefðu ákveðið að hefja viðræður strax í fyrramálið.
„Höfum ákveðið að hefja viðræður,“ sagði Kristrún við blaðamenn að loknum fundi þeirra í Alþingishúsinu seinni partinn í dag.
Sagði Kristrún að þótt þær viti af einstökum málum sem þurfi að ræða dýpra og finna lausnir á, þá telji þær sig hafa góðan málefnagrundvöll og eitthvað í höndunum sem hægt sé að vinna meira með til að koma á ríkisstjórnarsamstarfi.
Sagði hún að efnahagslegur stöðugleiki væri aðalmálið, að ná niður verðbólgu og vöxtum.
Þorgerður sagði þær vera bjartsýnar á viðræðurnar, „annars værum við ekki að taka þetta skref.“ Sagði hún að eitt af því sem stefnt væri að væri að fækka ráðuneytum. Það væri eitt af þeim atriðum sem ætti að sýna að þær ætluðu að taka á þessu verkefni fast og örugglega.
Inga tók undir með stöllum sínum og sagðist vera mjög bjartsýn og að fundurinn hefði verið góður. „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra,“ sagði hún.
Kristrún bætti við að ásamt efnahagsmálunum væri það innviðauppbygging og atvinnuuppbygging sem væru meðal stærstu málanna.
Þær vildu ekki gefa neitt upp um tímaramma viðræðnanna, en Kristrún sagði að þótt að rétt væri að flýta sér hægt í þessum málum, þá þyrfti að ná festu í landsmálunum og mátti því skilja hana svo að það ætti heldur ekki að láta viðræðurnar taka of langan tíma.
Viðræðurnar munu hefjast strax í fyrramálið og boða þær að fundað verði stíft í kjölfarið og að skipulag sé komið um þær viðræður.
Kristrún var að lokum spurð hvort þetta væru formlegar viðræður og sagði hún að slíkt ætti ekki við, þær væru einfaldlega byrjaðar viðræður um myndun ríkisstjórnar.
Fréttin hefur verið uppfærð