Stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins halda áfram í dag en ekki verður gefin upp staðsetning fundarins.
Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.
Hún segir að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og hún sjálf muni hittast klukkan 10 til að halda áfram viðræðum.
Og hvar ætlið þið að hittast?
„Það er leyndarmál. Við ætlum að hafa það út af fyrir okkur til að byrja með,“ segir Inga.
Hún kveðst vera bjartsýn, sem fyrr, og vonast til þess að geta verið með góð tíðindi í lok dags.
„Þetta er bara að fæðast. Það er að fæðast fallegt barn hjá okkur,“ segir Inga en tekur fram að það sé óljóst hversu langur fundurinn verði.
„Vonandi höfum við eitthvað skemmtilegt að segja eftir daginn í dag. Við sjáum til.“