Samstarf í þágu farsældar barna í viðkvæmri stöðu

Samstarfsyfirlýsingin var undirrituð í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Samstarfsyfirlýsingin var undirrituð í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Í dag var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu í stöðu í Reykjavík. Er yfirlýsingin í takt við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna þar sem samstarfsaðilum ber að fylgjast með þörfum barna, bregðast við og koma á samstarfi.

Það voru lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, skóla- og frístundaþjónusta og deild barna og fjölskyldna á miðstöðvum Reykjavíkurborgar, Barnaverndarþjónusta Reykjavíkur og framhaldsskólar í Reykjavík sem skrifuðu undir yfirlýsinguna í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, að fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Aðdragandi samstarfsyfirlýsingar er vinna sem unnin var af ríki og Vestmannaeyjabæ árið 2020. 

Lengi skortur á samstarfi milli stofnana

Í tilkynningunni segir að lengi hafi verið skortur á samstarfi milli stofnana ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að málefnum barna í viðkvæmri stöðu sem eru aðilar að ofbeldismálum; annars vegar þeirra sem beita ofbeldi og hinsvegar þeirra sem verða fyrir ofbeldi.

Í framhaldi af vel heppnaðri yfirlýsingu í Vestmannaeyjum hafi verið ákveðið að gera sambærilega tilraun með borgarhlutann Breiðholt, svo bæjarfélagið Mosfellsbæ og landshlutann Norðausturland. 

Samstarfsaðilar voru þeir sömu og nú, sveitarfélag með skólum, frístundastarfi, félagsþjónustu og barnavernd, sýslumaður, heilsugæsla og lögreglan. 

Vinnustofur haldnar fyrir allar miðstöðvar

Fram kemur að mikill metnaður hafi verið lagður í að koma á samningi fyrir alla borgina, en á annað hundrað manns tóku þátt í vinnustofu í Valsheimilinu í haust, þar sem málefnið „Börn í viðkvæmri stöðu“ var umræðuefnið.

Sambærilegar vinnustofur verða haldnar fyrir allar miðstöðvarnar í Reykjavík. Markmið vinnustofanna er að auka líkur á farsæld barna með því að efla samvinnu aðila innan borgarhluta sem sinna þeim og sérstaklega aðila sem eiga snertiflöt við börn sem teljast vera í viðkvæmri stöðu vegna ýmiss konar ofbeldis og vanrækslu.

Áhersla verður lögð á samvinnu um almennar forvarnir og að tengja verkefnið við forvarnaráætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert