Stjórnarmyndunarviðræður ganga mjög vel að sögn formanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur. Hún fundaði ásamt formanni Viðreisnar og formanni Flokks fólksins frá klukkan hálftíu í morgun til rúmlega 16 í dag.
Formennirnir hafa ákveðið að hittast aftur í fyrramálið í þinghúsinu til að halda viðræðunum áfram. Þá munu þeir fá fólk úr stjórnsýslunni, meðal annars fjármálaráðuneytinu, til að fara yfir stöðuna með þeim í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.
„Allt sem er rætt um í dag er til þess að tryggja áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. Við erum að þreifa fyrir okkur á stöðunni í ríkisbúskapnum auk þenslu í hagkerfinu. Þetta er á meðal þess sem verður rætt á morgun,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
Aðspurð segir Kristrún að enn sé ekki farið að reyna á ágreiningsmál í viðræðunum heldur hafi formennirnir rætt breiðu línurnar í ýmsum málefnum. Nefnir hún til dæmis efnahagsmál, velferðarmál, húsnæðismál og heilbrigðismál.
„Við erum að ræða á almennum nótum á þessum tímapunkti en svo mun þurfa að vinna ítarlegri vinnu þegar að við komumst lengra áfram en við þurfum að fá breiðu línurnar fram.“
Kristrún segir að það sé víða sterkur málefnagrundvöllur á milli flokkanna og á þessum tímapunkti séu ekki mörg ágreiningsmál sem formennirnir sjá fyrir.
Spurð hvort hún sé bjartsýn á að það verði búið að mynda nýja ríkisstjórn fyrir áramót segir Kristrún að ekki sé hægt að gefa upp neina tímasetningu í þeim efnum en að markmiðið sé að vinna hratt og halda áfram að byggja upp traust sín á milli.
„Við ætlum allavega að vinna hratt og örugglega. Það er ákveðið ábyrgðarefni að fara ekki af stað í svona viðræður nema með það markmið að klára þær.“