Sýndi af sér stórfellt gáleysi

Atvikið átti sér stað árið 2021.
Atvikið átti sér stað árið 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steina Árnadóttir hjúkrunarfræðingur var að reyna að hjálpa skjólstæðingi sínum en sýndi af sér stórfellt gáleysi í starfi þegar hún hellti næringardrykk ofan í sjúklinginn sem leiddi til þess að hann kafnaði á geðdeild Landspítalans árið 2021. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem var birtur í dag. 

Á mánudag var Steina sakfelld fyrir manndráp af gáleysi í opinberu starfi og fyrir brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Hún mun ekki sæta refsingu en er gert að greiða dánarbúi sjúklingsins tæpar þrjár milljónir króna auk 2,9 milljóna króna í sakarkostnað. 

Ákvörðun um refs­ingu Steinu skal frestað að liðnum tveim­ur árum frá dóms­upp­kvaðningu haldi hún al­mennt skil­orð, að því er kem­ur fram í dómsorði.

Sýndi ekki varfærni í starfi

Í dómnum segir meðal annars að Steina hafi verið kölluð inn í herbergi sjúklingsins af samstarfsfélögum sínum vegna þess að matarbiti hafi staðið fastur í hálsi hans. 

Hún sló þá á bak brotaþola og fannst eitthvað losna í hálsinum. 

Í kjölfarið hellti hún næringardrykk upp í munn brotaþola á meðan henni var haldið niðri, þrátt fyrir að brotaþoli hafi gefið til kynna að hún vildi ekki drykkinn. Drykkurinn hafnaði í loftvegi sjúklingsins sem hindraði loftflæði um lungun og olli öndunarbilun, og sjúklingurinn kafnaði. 

Að mati dómsins sýndi Steina ekki varfærni í starfi sem af henni mátti krefjast þegar veikburða sjúklingur á í hlut. 

Er þetta hvorki talin viðurkennd leið til að hella upp í sjúkling né fela í sér fagleg vinnubrögð.

Haft með sér alvarlegar og sorglegar afleiðingar

Í dómi héraðsdóms segir að afleiðingar atviksins hafi verið bæði alvarlegar og sorglegar fyrir alla sem áttu hlut að. Þá segir að atvikið hafi haft margvíslegar afleiðingar fyrir Steinu og að hún glími við heilsufarsvanda sem hún kveðst ekki sjá fyrir endann á. 

Þetta er í annað skipti sem málið fer fyrir héraðsdóm en hún var upphaflega sýknuð. Sá dómur var ómerktur í Landsrétti í apríl síðastliðnum og var málinu því vísað til meðferðar og dómsálagningar í héraðsdómi að nýju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert