Sóttvarnalæknir segir að RS-veirusýkingar stefni áfram upp á við en 45 einstaklingar greindust í liðinni viku, meirihluti þeirra tveggja ára börn eða yngri.
Þá lágu 14 einstaklingar inni á Landspítala með RS-veirusýkingu, þar af 10 börn á aldrinum tveggja ára eða yngri.
Þetta kemur fram á vef landlæknis þar sem farið er yfir stöðu öndunarfærasýkinga á landinu.
Þá segir að inflúensugreiningum hafi fjölgað milli vikna en 11 einstaklingar greindust í síðustu viku, níu með inflúensutegund A(H3) og tveir með tegund A(pdm09). Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum.
Einn í aldurshópnum 65 ára og eldri lá á Landspítala með inflúensu, að því er embættið greinir frá.
Þá greindust 10 einstaklingar með covid-19 í síðustu viku. Meirihluti þeirra var í aldurshópnum 15-64 ára. Sex lágu inni á Landspítala þessa viku.
Tæpur helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en Ccvid-19, inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fór í veirugreiningu hefur aukist á undanförnum vikum. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hækkar enn og var tæp 47% í liðinni viku.