900 milljónir í ferðamannainnviði á árinu

Samgöngubryggja við Hestseyri, sem er í nágrenni þjónustuhússins í Hornstrandafriðlandinu. …
Samgöngubryggja við Hestseyri, sem er í nágrenni þjónustuhússins í Hornstrandafriðlandinu. Á svæðinu var meðal annars farið í uppsetningu á fræðslu- og öryggisskilti og endurbætur á gönguleiðum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Samtals 899 milljónum verður úthlutað til uppbyggingu innviða sem vernda eiga náttúru og menningarsögulegar minjar á þessu ári, en gert er ráð fyrir að samtals verði 2,7 milljörðum varið í verkefnið yfir þriggja ára tímabil.

Núverandi áætlun, sem felur í sér 102 verkefni, gildir til ársins 2026 en verkefnaáætlun hefur verið uppfærð sex sinnum frá því að hún kom fyrst út. Verkefnum er forgangsraðað og er lögð áhersla á þá staði sem teljast undir álagi af völdum ferðamennsku, viðhald þeirra og bætt ástand.

Meðal verkefna eru göngustígar, bættar merkingar og bætt bílastæðamál. Markmið áætlunarinnar er „að stuðla að markvissri, vel ígrundaðri og heildstæðri uppbyggingu staða, svæða og leiða.“

Göngustígar hafa verið lagðir á Dyrhólaey, en í núverandi áætlun …
Göngustígar hafa verið lagðir á Dyrhólaey, en í núverandi áætlun var farið í bráðaaðgerðir við lagfæringu á gönguleið í Háey. Ljósmynd/Stjórnarráðið

162 milljónir í Geysissvæðið

Stærsta einstaka verkefnið í ár var við Geysi í Haukadal, en þar var um 162 milljónum varið í uppbyggingu innan svæðisins og viðhald á gönguleiðum. Er um að ræða framhald af fyrri áföngum á svæðinu.

Meðal annarra stórra verkefna má nefna 60 milljónir sem fara til lokafrágangs við stíg og útsýnispalls við Gullfoss, 50 milljónir í framkvæmdir við bílastæði við Látrabjarg, 28 milljónir sem fara í vegvísa, upplýsingaskilti og bílastæði að Fjallabaki og 46 milljónir sem fara í áningarstað og útsýnispall við Saxhól.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur samþykkt áætlunina.

Á vef stjórnarráðsins er haft eftir Guðlaugi að tækifæri séu til staðar að fara í sameiginleg útboð margra smærri verkefna á einu eða fleiri svæðum, sem annars væru undir útboðsskyldu. Haft er eftir honum að slíkt geti skilað aukinni hagkvæmni og gefið kost á meiri þátttöku í útboðum. „Við þurfum að vera opin fyrir nýjum leiðum og hugsa til lengri framtíðar,“ er haft eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert