Haustið 1682 fórst flutningaskipið Höfðaskip í ofsaveðri úti fyrir Langanesi með alla skipverja innanborðs, íslensk handrit og aðra dýrmæta gripi. Nú er hafin rannsókn þar sem markmiðið er að finna skipið.
Greint er frá þessu á vef Háskóla Íslands, en þar segir að skipið hafi siglt frá Spákonufellshöfða við Skagaströnd og hafi verið á leið til Kaupmannahafnar. Einn af skipverjum þess, Hannes Þorleifsson, var handritasafnari og var á leið með íslensk miðaldahandrit og -gripi til Danakonungs.
Þá segir, að flutningaskip á borð við Höfðaskip hafi yfirleitt siglt meðfram ströndu og hafi því alla jafna sokkið skammt undan landi, en neðansjávarmælingar hafa sýnt að flök þeirra liggja að meðaltali innan sex kílómetra frá strandlínunni.
„Það er því góð von að flak Höfðaskips finnist. Takist okkur að staðsetja það stefnum við að frekari rannsókn á því en vitað er að skip frá þessum tíma hafa varðveist vel í sjónum,“ er haft eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor við deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands, en hún stýrir nú rannsókn um Höfðaskip, sem er unnin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.
Þá kemur fram, að leitin að skipinu snúist ekki um að skoða hvaða handrit og gögn hafi farist með því heldur sé markmið rannsóknarinnar að staðsetja skipsflakið. Takist það muni opnast fyrir möguleika á að stunda frekari rannsóknir á því og farmi þess.
„Sambærilegar rannsóknir hafa farið fram á Íslandi og svo dæmi sé tekið hefur hollenska skipið Melckmeyt, sem sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659, verið myndað og kannað ítarlega. Þá eru einnig nokkrar minni neðansjávarrannsóknir í gangi,“ segir Steinunn.
Ítarlegri umfjöllun um verkefnið er að finna á vef HÍ.