Macland mun ekki snúa aftur í Kringluna eftir eldsvoðann sem varð þar í sumar.
Fyrirtækið var þar með bæði verslun og verkstæði, sem var sérvottað af Apple.
„Þeir voru við hliðina á Gallerí 17 [á 2. hæð]. Það er þar beint fyrir ofan sem eldurinn kemur upp, þannig að það var öll þessi miðja, bæði önnur hæðin og fyrsta hæðin sem var eiginlega gjörónýt,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, aðspurð.
Aðeins Macland og Eirberg hverfa því á brott frá Kringlunni eftir eldsvoðann mikla.
Fram kom í tilkynningu á vefsíðu Maclands skömmu eftir eldsvoðann að fyrirtækið væri harmi slegið vegna gríðarlegs tjóns sem hefði orðið.
„Macland er á þeim stað í Kringlunni sem fór verst út úr þessum atburðum og er tjónið gríðarlegt í verslun og á verkstæðinu okkar,“ sagði í tilkynningunni, þar sem jafnframt kom fram að fyrirtækið stefndi á að snúa aftur sem fyrst.
Núna er ljóst að ekki verður af því.
Spurð út í stöðu mála í Kringlunni dag, rétt tæpu hálfu ári eftir að eldsvoðinn varð, segir Baldvina verslunarmiðstöðina vera komna á fulla ferð.
Stór áfangi hafi náðst þegar sex verslanir opnuðu 21. nóvember, þ.e. NTC-verslanirnar Gallerí 17, GS skór, Kultur og Kultur menn, sem voru allar á svæðinu sem fór verst út úr brunanum, og verslanirnar Icewear og Polarn O. Pyret.
Í gær opnaði síðan Joe & The Juice á nýjan leik og á morgun opnar ný verslun Húrra Reykjavík í Kringlunni. Eftir tíu daga opnar síðan Søstrene Grene í stærra plássi en áður, eða þar sem Eirberg var staðsett. Polarn O. Pyret fór á hinn bóginn í pláss Søstrene Grene. Nespresso hefur einnig fært sig í annað pláss í Kringlunni eftir eldsvoðann.
„Sem betur fer í svona miklum erfiðleikum myndast stundum tækifæri,“ segir Baldvina.
„Þetta er búið að vera hellings púsluspil,“ bætir hún við um hrókeringarnar á verslununum. Auk Húrra Reykjavík kemur verslunin MT Hekla ný inn í Kringluna í stað Maclands og Eirberg.
Baldvina segir alla hafa lagt mikið á sig til að hægt yrði að opna fyrir jólin. Sumar verslanir hafi opnað seinna en vonir stóðu til en slíkt geti alltaf gerst í svona miklum framkvæmdum.
„Við erum bara alsæl og aðsóknin í nóvember var frábær, vel yfir miðað við í fyrra, og desember fer mjög vel af stað,“ segir Baldvina.
„Þannig að ég ætla ekki að segja við þig „hvaða bruni“, því hann mun aldrei gleymast, en þetta er komið í baksýnisspegilinn og við erum komin fulla ferð áfram, sem er bara mjög gaman.“