Magnús Hafliðason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri N1 og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Festi hf. á næsta ári.
Samhliða ráðningu Magnúsar mun Reynir Leósson taka við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra N1 en hann hefur gegnt starfi forstöðumanns fyrirtækjasviðs undanfarin þrjú ár. Hann mun áfram gegna þeirri stöðu ásamt nýrri stöðu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Festi til Kauphallarinnar.
Magnús býr að liðlega 25 ára reynslu á Íslandi og í Skandínavíu sem rekstrar- og markaðsmaður og hefur síðustu þrjú ár verið forstjóri Domino's á Íslandi og áður framkvæmdastjóri fyrirtækisins á Íslandi.
Hann hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri Domino's í Danmörku árin 2006 til 2007, rekstrar- og markaðsstjóri Domino's á Íslandi árin 2011 til 2014 og í Noregi árin 2014 til 2017 og sem sérfræðingur í rekstrar- og markaðsmálum á erlendum mörkuðum Domino's Pizza Group á árunum 2018 til 2019.
Hann hefur þá einnig starfað sem framkvæmdastjóri Joe and the Juice á árunum 2019 til 2020 og tók við sem forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Sýnar árið 2020 til 2021.
Magnús hefur lokið Executive MBA-gráðu hjá Háskóla Íslands.