Oftast var strikað yfir nafn Höllu Hrundar Logadóttur, oddvita Framsóknar, af öllum frambjóðendum í Suðurkjördæmi eða alls 192 sinnum. Það er um 5% af þeim sem kusu Framsókn.
Þetta kemur fram í svari formanns yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis við fyrirspurn mbl.is. Hér verður aðeins farið yfir þá frambjóðendur sem fengu útstrikanir. Alls er um að ræða 766 útstrikanir.
Á eftir Höllu kemur Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins, en 146 strikuðu yfir nafnið hans eða færðu hann neðar á listann.
45 manns strikuðu yfir nafn Guðbrands Einarssonar, oddvita Viðreisnar, og 27 manns strikuðu yfir Víði Reynisson, oddvita Samfylkingarinnar.
Þar á eftir kemur Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, en 25 manns strikuðu yfir hana á sama tíma og 15 manns strikuðu yfir nafn Ásthildar Lóu Þórsdóttur, oddvita Flokks fólksins.
Af oddvitunum var því minnst strikað yfir nöfn Ásthildar og Guðrúnar, en þær fengu einnig flest atkvæði.
Oddvitar fá jafnan flestar útstrikanir en frambjóðendur í 2. sæti á listum flokkanna fengu á bilinu 2-18 útstrikanir.
Flestar útstrikanir þeirra fékk Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, en fæstar útstrikanir fékk Sigurður Helgi Pálmason, nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins.
Þeir frambjóðendur í 3. sæti sem voru oftast útstrikaðir voru Ólafur Ísleifsson hjá Miðflokknum með 21 útstrikun og Ingveldur Anna Sigurðardóttir hjá Sjálfstæðisflokknum með 19 útstrikanir. Hvorugt þeirra náði inn á þing en þó ekki vegna útstrikana.
Útstrikanir á frambjóðendum sem vermdu fjórða sæti á listum sínum voru á bilinu 2-21.