Sex voru fluttir á slysadeild

Rútuslys varð við Hala í Suðursveit í gærkvöldi.
Rútuslys varð við Hala í Suðursveit í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Flytja þurfti sex einstaklinga sem lentu í rútuslysinu austan við Hala í Suðursveit í gærkvöldi annars vegar á Heilbrigðisstofnunina á Selfossi og hins vegar á Landspítalann í Fossvogi.

Allur hópurinn fór með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Selfoss og þaðan fór hluti hans með sjúkraflugvél frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur.

Erlendir ferðamenn í rútunni

Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, kveðst ekkert geta fullyrt um hversu alvarleg meiðslin voru en enginn er þó talinn í lífshættu.

Um borð í rútunni voru erlendir ferðamenn frá nokkrum löndum, bætir hann við, en hefur ekki nánari upplýsingar um á hvaða ferðalagi þeir voru. Um 20 manns voru um borð í rútunni. 

Hópslysaáætlun var virkjuð.
Hópslysaáætlun var virkjuð. Ljósmynd/Aðsend

Sagðir hafa kastast út 

Spurður hvort einhverjir farþegar hafi kastast út úr rútunni segist Þorsteinn ekki geta staðfest það en RÚV greindi frá því í gærkvöldi.

Þar kom einnig fram að sjö hefðu verið fluttir á slysadeild en einn þeirra sem fór með hópnum var aðstandandi sem hafði ekki slasast.

Mikil hálka á veginum 

Mikil hálka var á veginum en Þorsteinn getur ekki sagt til um hvort vegurinn hafi verið sandaður eða ekki.

Hann segir eitt af því sem lögreglan rannsakar í sambandi við tildrög slyssins vera hvort rútan hafi runnið í hálku.

Rannsókn stendur enn yfir á vettvangi slyssins.

Ljósmynd/Aðsend

„Gríðarlegur viðbúnaður“

„Þetta var gríðarlegur viðbúnaður. Þegar svona gerist er öllu tjaldað til,“ segir Þorsteinn, aðspurður, og nefnir að hópslysaáætlun hafi verið virkjuð.

„Sem þýðir að allar bjargir koma að þessu, hvort sem það er sjúkralið, Landhelgisgæslan, sjúkraflugvélar, sjúkrabílar, björgunarsveit og lögreglan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert